145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

upplýsingalög.

19. mál
[18:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlakka mikið til að sjá nefndarálitin um þetta mál að því gefnu að þau verði fleiri en eitt, sem ég vona að verði ekki tilfellið. Ég vona einfaldlega að sátt verði um þetta mál og býst reyndar fastlega við því.

Eins og hv. þingmaður veit, og hefur talað um, þá er hins vegar stundum kerfislegur mótþrói gegn svona hlutum og þá kemur hann í ljós og einhver rök um „svona atriði“ sem okkur eru ekki ljós hér og nú. Ég hugsa að við getum aldrei fundið út úr því hér, með einfaldri umræðu, hvaða „svona atriði“ gætu orðið að vandamálum seinna en það er oft þannig að hlutir sem geta orðið að vandamálum verða aldrei raunverulega að vandamálum. Það er eitthvað sem við skoðum þegar þetta er gengið í gegn, sem ég geri ráð fyrir að gerist einhvern tíma; kannski ekki á þessu þingi en vonandi.

En eins og nefnt er í greinargerðinni þá eru fleiri skref sem hægt er að stíga í þessum efnum og í sjálfu sér engin ástæða til að staldra við eða ætla á einhvern hátt að fara ekki áfram með þetta vegna þess að einhver vandkvæði gætu orðið seinna. Ef þau koma upp þá er um að gera að eiga bara við þau þegar það gerist.