145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

móttaka flóttamanna.

[15:08]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svarið en ítreka að það er mikilvægt að af Íslands hálfu sé líka lögð áhersla á það á alþjóðlegum vettvangi að við munum almennt reyna að opna leið fyrir fólk úr flóttamannabúðunum. Besta leiðin er auðvitað sú að fækka fólkinu þar, gera því kleift að koma hingað og fá úrlausn sinna mála hér, sækja um hæli hér. Hið sama gæti gilt um önnur vestræn lönd, að létta á þrýstingnum í búðunum og sýna fólki þar með að biðin í biðröðinni skilar árangri, að röðin komi að því, að þetta sé ekki vonlaust.

Ég vil að síðustu ítreka þau orð að það er óskaplega mikilvægt í íslenskum stjórnmálum að þverpólitísk samstaða geti verið um mikilvæg mannúðarmál eins og þetta. Ég fagna því enn og aftur að ríkisstjórnin skuli hafa komið fram með alvöruaðgerðapakka í málinu.