145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

Hús íslenskra fræða og viðbygging við Alþingi.

[15:10]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. 1. apríl síðastliðinn birtist á forsíðu Fréttablaðsins frétt að fyrir lægi tillaga frá hæstv. forsætisráðherra um að til að fagna afmæli fullveldisins yrði ráðist í að byggja Hús íslenskra fræða, ráðist yrði í viðbyggingu við Alþingishúsið samkvæmt teikningum Guðjóns Samúelssonar og ráðist yrði í uppbyggingu á Þingvöllum. Eftir að sú frétt birtist á forsíðu Fréttablaðsins vorum við formenn stjórnarandstöðuflokkanna boðuð á fund forsætisráðherra til að ræða þessa tillögu. Þeim fundi lauk með því að við biðum eftir að heyra frekari fregnir. Rætt var um sérstaklega hvort ekki væri eðlilegt að forsætisnefnd Alþingis kæmi að málum þegar rætt væri um nýja byggingu fyrir Alþingi, en aðrar framkvæmdir, sérstaklega þó Hús íslenskra fræða, voru auðvitað gamalkunnugar og ætti að vera okkur kappsmál því að það sem nú er kallað hola íslenskra fræða hefur staðið þar alllengi. Auðvitað fer að líða að því að taka þarf ákvörðun um hvort fylla eigi í holuna eða hvort byggja eigi hús undir handritin og þá starfsemi sem þeim fylgir. Þetta snýst ekki bara um varðveislustað, þetta snýst líka um kennslu og rannsóknir á íslensku máli. Við ættum auðvitað að velta sérstaklega fyrir okkur stöðu þess núna þegar hver sérfræðingurinn á fætur öðrum varar okkur við því að við gætum verið að komast á þann stað í hraðri tölvutækniþróun nútímans að íslenskan gæti verið að renna okkur úr greipum.

Á meðan er holan þarna enn og minnir okkur á það hvernig við búum að íslenskri tungu í fortíð og framtíð.

Þær fregnir hafa síðan borist, ég hef ekki fengið þær staðfestar, að málið væri fast í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Ég veit svo sem ekkert um það enda tilheyri ég ekki þeim annars ágæta flokki.

Mig langar því að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvar stendur málið? Eigum við von á því að ákvörðun verði tekin um hvort við ætlum að byggja hús yfir íslensk fræði? Eigum við von á því að einhver niðurstaða verði hvað varðar húsnæði fyrir þingið og Þingvelli?