145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

Hús íslenskra fræða og viðbygging við Alþingi.

[15:14]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra upplýsingarnar. Í máli hans kom fram að hann, eins og ég, er ekki í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, en ég fékk ekki alveg skýr svör við því hvort til stæði að ljúka málinu eða hvort hæstv. forsætisráðherra hygðist beita sér fyrir því að málinu yrði lokið né heldur hvað tefði málið nákvæmlega. Ég held að öllum væri nokkur sómi að því ef við tækjum þessi mál upp aftur, hvort sem það er í formi þeirrar tillögu sem hæstv. forsætisráðherra lagði fram eða með einhverjum öðrum hætti, og vil hvetja hæstv. forsætisráðherra til að eiga frumkvæði að því að öll þessi mál verði tekin upp á nýjan leik og skýra okkur frá því hvað hefur eiginlega tafið málið síðan fréttin birtist á forsíðu Fréttablaðsins 1. apríl svo að þetta muni ekki reynast aprílgabb í raun og veru.

Ég bið hæstv. forsætisráðherra annars vegar að skýra okkur frá því hvað tefur málið og hins vegar hvetja hann til þess að beita sér fyrir því að þessi mál verði tekin upp til umræðu á nýjan leik.