145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

hæfnispróf í skólakerfinu.

[15:16]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Nýverið kom fram að til stæði að breyta reglugerðum á þann veg að framhaldsskólar gætu tekið nemendur inn á hæfnisprófi. Þetta kom eins og blaut tuska framan í marga skólastjórnendur

Hæstv. ráðherra segir í viðtali á visir.is, með leyfi forseta:

„Við vitum ekki hvaða veruleika ungt fólk sem er að ljúka námi verður í. Mörg þeirra starfa sem við sinnum í dag, þau verða horfin. Þess vegna skiptir miklu máli að byggja upp lykilhæfnina, svo þau geti orðið virkir þátttakendur í samfélagi framtíðar.“

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra menntamála hvað hann er nákvæmlega að segja hér. Hvaða störf eru það sem gætu verið horfin og í hvaða samhengi sér hann hæfnisprófin í tengslum við það að nemendur verði virkari þátttakendur í samfélagi framtíðar? Ég átta mig ekki alveg á þessu, þ.e. forsendum fyrir þessum hæfnisprófum.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra af hverju í ósköpunum ekki eru skoðaðar mjög árangursríkar aðferðir Finna varðandi nám og hvort hann telji að þessar tillögur verði til þess að auka traust á milli til dæmis ráðuneytis og skólastjórnenda eða hvort þetta sé til þess fallið að grafa undan því trausti.