145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

uppbygging Landspítalans við Hringbraut.

[15:26]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þessi svör og tek undir með honum að allt megi ræða.

Varðandi þær tölur sem forsætisráðherra nefnir er búið að reikna það saman í nýlegri skýrslu KPMG að nú verður byggingarkostnaður að reiknast 21 milljarði hærri ef spítalinn er hafður á nýjum stað í stað þess að fara í þessa uppbyggingu við Hringbraut. Fasteignir yrðu þá væntanlega að seljast á í kringum 21 milljarð ef þetta ætti að koma út á sléttu.

Í nafni umræðunnar má líka benda á að þær fasteignir sem spítalinn er núna í eru 17 á höfuðborgarsvæðinu. Þá er talinn með spítalinn í Fossvogi og ég sé því ekkert til fyrirstöðu að þangað geti til dæmis komið heilsuhótel.