145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

einkavæðing Landsbankans.

[15:29]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Maður spyr sig: Er hæstv. fjármálaráðherra alvara með því að við Íslendingar séum komnir þangað að rétt sé að hefja einkavæðingu Landsbankans aftur? Er það ekki þannig að skattgreiðendur hafa í mörg undanfarin ár grætt miklu meira á því að eiga Landsbankann en þeir hefðu gert hefðu þeir selt hann? Er ekki allt of stutt liðið frá hruni? Höfum við ekki gert allt of litlar breytingar á fjármálakerfinu til að ríkinu sé óhætt að draga sig núna út af fjármálamarkaðnum? Er ekki í landinu fullkomlega óeðlilegt viðskiptaumhverfi með gjaldeyrishöftum og óeðlilegri afkomu í fjármálakerfinu og aðstæður sem gefa ekkert tilefni til þess að vera að leggja til sölu á eignarhlut ríkisins í Landsbankanum? Er það ekki þannig að á fjármálamarkaði er nánast einokunarstarfsemi af hálfu þriggja risa á þeim markaði? Er ekki við þær aðstæður varhugavert að ríkið dragi sig út af þeim markaði? Er ekki nauðsynlegt að við beitum okkur fyrir frekari samkeppni og lægri kostnaði á fjármálamarkaði áður en menn fara að hleypa einkaaðilunum að á markaðnum? Höfum við ekki margoft rætt, m.a. ég og hæstv. fjármálaráðherra, algera nauðsyn þess að tryggja varanlega með lagasetningu að það geti aldrei gerst aftur að einn einstaklingur eða pínulítil klíka geti sölsað undir sig stóran viðskiptabanka hér í landinu? Hefur fjármálaráðherra lokið því verki? Er óhætt að fara að selja eignarhlutina?

Ég tel að þessi tillöguflutningur ráðherrans sé algerlega ótímabær og hlýt að spyrja hann hvort það sé ekki alger forsenda að skattgreiðendur hagnist meira á því að selja hann en á því að eiga hann. Er ekki alger forsenda að tryggja það að ógæfan endurtaki sig ekki með því að örfáir aðilar í viðskiptalífinu nái að leggja undir sig stóra eignarhluti (Forseti hringir.) í fjármálafyrirtækjunum? Og er ekki fjármálamarkaðurinn enn þá í þeirri endurskoðun og þarf hann ekki á þeirri uppstokkun og samkeppni að halda að ríkið eigi þvert á móti að grípa til aðgerða (Forseti hringir.) á þeim markaði en ekki vera að draga sig í hlé?