145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

málefni flóttamanna.

[15:47]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Mér finnst afar mikilvægt að Íslendingar standi bæði undir sínum alþjóðlegu og líka hinum siðferðislegu skuldbindingum. Mér finnst gríðarlega mikilvægt að um mál eins og þetta takist víðtæk samstaða þar sem við látum ekki skerast í odda eftir hefðbundnum flokkspólitískum ágreiningslínum. Vandinn er líklegur til að stækka, það eru að verða nýjar brotalínu í Sýrlandi sem líklegar eru til þess á næsta ári að hrinda af stað jafnvel stærri bylgju flóttamanna en við höfum séð í dag.

Ég tel að hæstv. ríkisstjórn hafi tekið á þessu máli af skilningi og af ábyrgð. Ég tel að í ákvörðun hennar um helgina felist ákveðin sáttarhönd til stjórnarandstöðunnar í þessu máli. Ég lít svo á að þetta gefi okkur möguleika á nýju upphafi. Ég ætla ekki að taka þátt hér í umræðu um framtíðarskipulagið, ég sit í þverpólitískri þingmannanefnd sem hefur náð þeim undraverða árangri að vera nánast búin að ljúka gerð frumvarps í fullkominni sátt, það er virkilega mikill áfangi og ég vil mikið á mig leggja til að halda þeirri samstöðu áfram. Ég tel að þeir fjármunir sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt til þessa máls, og hraðar en ég átti von á, dugi til þess að koma loksins á almennilegan grunn því fyrirkomulagi sem búið er að móta.

Við skulum ekki gleyma því að stjórnsýslan hefur í miklum ólgusjó staðið sig þokkalega að því marki að þó að henni sé féskylft er hún búin að rissa upp gott fyrirkomulag sem ég tel að þetta skref ríkisstjórnarinnar gefi okkur loksins færi á að slípa. Þetta er það sem ég kalla nýtt tækifæri í þessum málum. Það er kannski tvennt sem ég vil segja að við þurfum að gera, við þurfum að koma upp flýtimeðferð sem byggist á því að afgreiða umsóknir á 10–15 dögum og það verður að gera eitthvað varðandi kærunefnd útlendingamála. Þar hefur skapast nýr og óvæntur flöskuháls. Þetta bið ég hæstv. forsætisráðherra að íhuga.