145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

málefni flóttamanna.

[15:52]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu hér í dag. Ég átti þess kost í liðinni viku að heimsækja flóttamannabúðir í Tyrklandi og Líbanon og einnig að heimsækja þá starfsmenn Rauða krossins og Flóttamannastofnunar sem annast þessi mál í þessum tveim löndum og eins á Sikiley. Við hv. þm. Óttarr Proppé ætlum okkur að miðla þeim upplýsingum sem við öfluðum okkur á þessu ferðalagi okkar til allra sem áhuga hafa á að heyra og við munum byrja á því að vera með fund fyrir þingmenn í hádeginu á miðvikudaginn. Ég vonast til að sjá sem flesta.

Skilaboðin — við spurðum þá flóttamenn sem við áttum tök á að ræða við: Hver eru skilaboð ykkar til leiðtoga heimsins? Hvað er það sem við getum farið með beint frá ykkur til þeirra? Þeir flóttamenn sem við ræddum við í Líbanon sögðu: Í fyrsta lagi senda meiri aðstoð til Líbanon. Við erum hér öll, við viljum fara heim. Við komum hingað til að dvelja hér í skjóli í nokkrar vikur sem urðu síðan nokkrir mánuðir og núna eru þetta orðin nokkur ár. Við ætluðum okkur aldrei að fara neitt annað en að fara aftur heim. Við erum hins vegar að tapa voninni og við þurfum þess vegna annaðhvort að fá meiri aðstoð hingað þannig að við fáum þá heilsugæslu sem okkur vantar, börnin okkar fái einhverja menntun og við eigum kost á að búa hér.

Skilaboðin voru líka þau að fólk óskar eftir því að við leggjum okkar af mörkum til að stilla til friðar í Sýrlandi þannig að það geti einhvern tímann farið heim. Það er ekki þannig að allir þeir sem eru í flóttamannabúðum í Líbanon upplifi sig þannig að þeir séu að bíða í röð eftir að komast áfram sem kvótaflóttamenn, alls ekki. Það er ekki það sem fólk er að hugsa um, heldur ætlar það sér bara að fara heim, bara eins og við mundum tímabundið þurfa að flytja til Noregs vegna náttúruhamfara. Það er hugsunin þar, ég lofaði því að koma þessum skilaboðum til okkar ráðamanna og ég treysti því (Forseti hringir.) að þau verði borin áfram til leiðtoga heimsins.