145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

málefni flóttamanna.

[15:57]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Það er mikilvægt skref sem stjórnvöld hafa tekið og ber að fagna því að um er að ræða alvörufjármagn og alvöruskref. Áætlunin, sem er í þremur liðum, er mikilvæg og hver einasti liður er mikilvægur en eins og hér hefur komið fram er mikilvægt líka að líta ekki á þetta sem átaksverkefni eða einskiptisaðgerð heldur hluta af framtíðarsýn og ábyrgri aðkomu fullvalda þjóðar að þessu stóra og sögulega verkefni.

Ég hef verið mjög hugsi yfir þeim þætti sem lýtur að hugmyndastraumum sem er á kreiki í samfélagsumræðunni, bæði hér og annars staðar í Evrópu, en það eru sífellt meiri áherslur á þjóðernishyggju, útlendingaótta og fordóma. Í könnun á vegum Maskínunnar kemur fram að um 20% þjóðarinnar eru andvíg því að taka við flóttamönnum frá Sýrlandi yfir höfuð og því ljóst að hér er á ferðinni raunverulegt og aðkallandi verkefni sem lýtur að því að vinna skipulega gegn fordómum og útlendingahatri á Íslandi. Því má spyrja hæstv. ráðherra um það sérstaka verkefni, sem þarf augljóslega að nálgast í samstarfi við skólakerfið, fjölmiðla, grasrótarheyfingar, opinberar stofnanir og atvinnulífið, að vinna skipulega gegn útlendingaandúð og ótta. Eru einhver slík áform uppi?

Flóttamannavandinn er vissulega mikill og aðkallandi og verkefnið er stórt en það ógnar engu í viðlíka mæli og sú bylgja fordóma og vanþekkingar sem má greina víða í Evrópu og jafnvel á Íslandi. Það verkefni er stærra og sá vandi er enn meira aðkallandi. Samfélag sem kennir sig við víðsýni og mannréttindi á að vera í forustu í þeirri umræðu, vera í forustu gegn fordómum og forustu gegn útlendingahatri. Ég skora á stjórnvöld að taka líka slík skref.