145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

málefni flóttamanna.

[16:01]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forsætisráðherra og ráðherranefnd hans fyrir þá tilkynningu sem gerð var á laugardaginn. Tilefnið er það að í Sýrlandi hefur geisað skelfileg styrjöld lengur en fyrri heimsstyrjöld. Um árabil höfum við ríki heimsins leitt fram hjá okkur þær hörmungar sem þar hafa yfir fólk dunið og það fólk sem safnast hefur saman í flóttamannabúðum hundruðum þúsunda og milljónum saman. Svo kom auðvitað að því að stíflan brast og fólk fór að flæða yfir Miðjarðarhafið til Evrópu í leit að skjóli og í leit að framtíð fyrir börnin sín, eins og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir kom inn á áðan, fólk vill menntun og heilsugæslu fyrir börnin sín. Það er nú hin stórkostlega krafa, það er grundvallarkrafan fyrir okkur öll að sjá fram á framtíð fyrir börnin okkar.

Ég er fegin að við eftir að hafa vanrækt skyldur okkar um móttöku á flóttafólki um allt of langt skeið skulum nú vera að vakna til lífsins og ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra enn og aftur fyrir að vera í fararbroddi í þeim efnum. Það er auðvitað þannig að þegar slík yfirlýsing er gefin vakna oft ýmsar spurningar. Hér kemur fram að þessi stuðningur eigi að vera með þrenns konar hætti og þeir 2 milljarðar eigi að vera annars vegar á yfirstandandi ári og síðan á næsta ári. Það sem ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra út í er hvort þetta séu ekki örugglega nýjar fjárveitingar umfram það sem áður hefur verið veitt inn í þessa málaflokka og hvort það sé ekki öruggt að ekki sé aðallega verið að nota fjárveitingu þessa árs í það sem hvort eð er hefði þurft að setja inn í hælisleitendamálaflokkinn. (Forseti hringir.) Það þarf að bæta við umtalsverðu fé. Er ekki öruggt að það er ekki það sem verið er að gera með þessum 2 milljörðum heldur koma með til viðbótar nýja fjármuni inn?