145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

málefni flóttamanna.

[16:04]
Horfa

Brynhildur S. Björnsdóttir (Bf):

Herra forseti. Ég vil byrja eins og svo margir aðrir á að þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir þessa þörfu umræðu og svo auðvitað lýsa yfir ánægju með ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að veita 2 milljarða til flóttamannaaðstoðar á næstu tveimur árum.

Ég vona að þessi fjárveiting sé merki um að við séum að vakna almennilega hvað ábyrgð okkar á meðbræðrum og -systrum varðar víðs vegar í heiminum, því að eins og við öll vitum og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir kom inn á áðan er þetta vandamál ekki nýtt af nálinni. Flóttamannavandinn í Sýrlandi er orðinn nokkurra ára gamall þannig að í rauninni má segja að það hafi tekið okkur og Evrópu of langan tíma að átta okkur á þörfinni fyrir aðstoð. Auðvitað hefði verið hægt að setja meira fé í málaflokkinn og þörfin auðvitað óendanleg, en ég fagna byrjuninni og vona að við stígum enn stærri skref en fyrst og fremst markvissari í framtíðinni.

Mig langar eins og marga aðra að hamra á þörfinni fyrir ákveðna heildstæða stefnu í þessum málaflokki til lengri tíma litið. Aðstoðin má ekki vera undir því komin að við almenningur sjáum nógu mikið af óhugnanlegum myndum af drukknandi börnum til að eitthvað gerist. Vandinn er viðvarandi og hjálpin þarf að vera það líka. Það þarf að gera plan. Við þurfum að koma okkur saman um viðmið og mynda samfélagssáttmála til framtíðar um aðstoð, bæði við flóttamenn og hælisleitendur.

Miðað við þær breytingar sem við horfum á vegna loftslagsbreytinga í umhverfi okkar má frekar gera ráð fyrir því en hinu að landflótti muni aukast og ekki þá bara vegna ófriðar heldur náttúruhamfara. Við vitum ekki hverjir verða flóttamenn framtíðarinnar og hvaðan þeir munu koma. Höfum það í huga þegar við myndum okkur heildstæða stefnu í móttöku flóttamanna og víkjumst ekki undan okkar samfélagslegu ábyrgð gagnvart bræðrum okkar og systrum þegar stríð eða náttúruhamfarir geisa.