145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

málefni flóttamanna.

[16:06]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Orð hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur þegar hún ræddi um flóttamenn frá Sýrlandi í ræðustól hér áðan sýna svart á hvítu hvernig fólki í þessari stöðu er innan brjósts. Hv. þingmaður sagði: Allir sem við töluðum við sögðust vilja fara heim en ástand mála heima fyrir veitir þeim ekki öryggi og því leita menn hjálpar hjá öðrum þjóðum.

Ég er afskaplega ánægð með að ríkisstjórn Íslands skyldi samþykkja það á laugardag að verja 2 milljörðum til flóttamannamála. Við búumst við fyrsta flóttafólkinu hingað til lands í desember. Ég er ánægð með að íslensk stjórnvöld settu mun meiri kraft í þetta mál eftir að ljóst varð hve slæm staðan var að verða. Ég er ánægð með að við ætlum að taka á móti fleiri flóttamönnum en fyrr var áætlað og að fjárframlagið sem íslenska ríkið mun láta af hendi rakna til þessara mála verða 2 milljarðar. Það er afar mikilvægt framlag.

Eins og flóttamennirnir, sem hv. þingmenn Unnur Brá Konráðsdóttir og Óttarr Proppé ræddu við, segja sjálfir þá vilja þeir allir vera heima en oft þarf fólk að flýja heimkynni sín vegna hernaðar, hungursneyðar, náttúruhamfara eða annarra ástæðna sem gera að verkum að það neyðist til að fara að heiman og fara jafnvel frá heimalandi sínu. Þess er ekki lengra að minnast en nokkur hundruð ár aftur í tímann að við Íslendingar vorum akkúrat í þessari stöðu, í móðuharðindunum seint á 18. öld, en hún færði Íslendinga og íslensku þjóðina fram á barm ginnungagapsins sem nærri svelgdi í sig þjóðina, svo vitnað sé í Jón Sigurðsson forseta. Hann sagði að það hefði varla mátt muna hársbreidd (Forseti hringir.) að Íslendingar væru alveg horfnir úr tölu þjóðanna. (Forseti hringir.) Ekki er lengra síðan en þá að við vorum í þessari hræðilegu stöðu.