145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

málefni flóttamanna.

[16:10]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum og hæstv. ráðherra fyrir ágæta umræðu. Það sem upp úr stendur er að það er mjög mikilvægt að við lítum á þann tímapunkt sem við erum stödd á núna sem hvatningu til að halda áfram að breyta kerfinu, einfalda það og, eins og hér hafa margir hv. þingmenn bent á, taka tillit til ekki bara flóttamanna heldur hælisleitenda og þeirrar stöðu sem þar er uppi. Það er mikilvægt að við komum á flýtimeðferð þannig að úrlausn mála taki skemmri tíma en hún tekur núna. Það er mikilvægt að við tökum „grundig“ umræðu um Dyflinnarreglugerðina sem gerir það að verkum að ekki er verið að taka efnislega afstöðu í málefnum hælisleitenda og það er mikilvægt að við setjum okkur markmið til lengri tíma.

Ég get tekið undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa sagt að auðvitað langar engan að flýja heimili sitt og þeir sem flýja vilja snúa heim. En við verðum líka að horfast í augu við það sem hér hefur verið bent á að það eru kannski ekki miklar líkur til þess í náinni framtíð fyrir marga af þeim sem eru á flótta og því skiptir máli að að þeim sé vel búið hvort sem er hér á Íslandi eða annars staðar í heiminum. Ég hef líka sagt að ég tel að við Íslendingar getum tekið á móti fleira fólki og ég finn það bara á viðhorfi viðhorf fólks hér á landi að það er mjög tilbúið til að leggja sitt af mörkum. Ef saman fer einbeittur vilji stjórnvalda, stjórnarandstöðu en líka fólksins í landinu og sveitarstjórna um land allt þá ættum við að geta nýtt þá fjármuni sem nú hefur verið ákveðið að verja til þessara mála til að gera miklu betur í þessum málum.

Mig langar að segja að lokum að ég held að við sem skipum hér stjórnarandstöðuna séum mjög reiðubúin til samstarfs við ríkisstjórnina um þessi mál og ítreka það sem ég sagði í upphafi að til að tryggja sem besta niðurstöðu og til að komast hjá þeirri hættu að hér vaxi kynþáttahyggja, ótti við útlendinga og aðra þá skiptir máli að við stjórnmálamenn náum sem bestri sátt. Ég vil ljúka mínu máli á því að segja að við erum reiðubúin til slíks samstarfs.