145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

málefni flóttamanna.

[16:13]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka mjög góðar umræður og boð hv. málshefjanda um samstarf við stjórnvöld í þessum málaflokki. Ég tek undir að það er mikilvægt að við vinnum að þessu saman, stjórn og stjórnarandstaða, stofnanir, sveitarfélög og samfélagið allt.

Það voru gerðar hér nokkrar athugasemdir og komið með spurningar. Ég ætla að reyna að fara yfir það eins og mér vinnst tími til. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi mikilvægi flýtimeðferðar og þess að kærunefnd útlendingamála yrði ekki flöskuháls. Ég tek heils hugar undir þetta og stjórnvöld eru mjög meðvituð um mikilvægi þess að flýta þessum málum mjög og þess vegna er gert ráð fyrir verulega auknu fjármagni í að fást við þessa stöðu því að það er til mikils og gríðarlega mikilvægt að menn fái úrlausn sinna mála sem fyrst. Það munu ekki allir fá jákvætt svar en ekki má gleyma því að það er meðal annars til þess að þeir sem eiga raunverulega rétt á því að fá stöðu flóttamanns geti fengið sem besta aðstoð hér á Íslandi.

Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir að deila með okkur reynslu sinni af því að hitta flóttamenn í Líbanon og víðar og tek undir þær áherslur sem hún talaði fyrir, mikilvægi þess að við gerum fólkinu þar lífið bærilegra og veitum því von eins og kostur er. Það eru mjög ólíkar aðstæður, að mér skilst, milli flóttamannabúða og í Líbanon er ástandið einna verst, enda birtist það í áætlun stjórnvalda um að byrja á því að leggja áherslu á að bæta aðstöðuna þar.

Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir spurði hvort ekki væri örugglega um nýtt fjármagn að ræða hvað varðaði þessa 2 milljarða. Sú er raunin. Þar er ekki tekið með í reikninginn það sem áður hefur verið sett í málaflokkinn heldur er um að ræða hreina viðbót.

Því miður vinnst mér ekki tími til að fara yfir þetta allt saman. Ég ítreka þakkir fyrir góða umræðu.