145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:16]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegur forseti. Það frumvarp sem við ræðum hér, um breytingu á þróunarsamvinnu Íslands, fjallar eftir því sem ég best skil um að færa sjálfstæða stofnun sem heyrir undir ráðuneyti hæstv. utanríkisráðherra inn í utanríkisráðuneytið. — Er ráðherra í húsinu? Já. Frábært. Þetta þykir mér sérstök aðgerð og ég velti fyrir hvort hæstv. utanríkisráðherra skilji mikilvægi þess að stofnunin sé starfrækt utan ráðuneytisins en ekki inni í því. Þá leggur hæstv. utanríkisráðherra einnig til að stofnuð verði sérstök nefnd í staðinn, þróunarsamvinnunefnd. Í henni skal vera hópur fimm þingmanna sem kosnir skulu af Alþingi, aðrir fimm fulltrúar sem skulu vera skipaðir í samráði við íslensk borgarasamtök, tveir fulltrúar úr háskólasamfélaginu og aðrir tveir í samráði við vinnumarkaðinn.

Nú verð ég að fá að spyrja af hverju þetta eru fimm pólitískir fulltrúar. Af hverju ekki tíu, af hverju ekki sex? Hvaða hugmyndir liggja þar að baki? Fyrir mér hljómar þetta bara eins og þverpólitísk nefnd, blönduð nefnd sem á að sinna pólitísku utanríkishlutverki og heyrir beint undir utanríkisráðuneytið. Við það að breyta stofnun í nefnd er gengið á pólitískt hlutleysi stofnunarinnar, þ.e. hún fær flokkspólitískt hlutverk. Nefndir sem hafa fimm alþingismenn innan borðs verða alltaf í eðli sínu að einhverju leyti pólitískar. Kannski er það bara mitt barnalega sakleysi sem fær hérna að skína en ég hélt að tilgangurinn með stofnunum væri sá að koma í veg fyrir að ákvarðanir um mikilvæg málefni væru teknar út frá flokkspólitískum línum, svo sem að ákveða hvað börn eiga að læra eða hvernig þróunarsamvinna skuli vera. Ég nefni Námsgagnastofnun sem dæmi. Hvernig þætti hæstv. utanríkisráðherra ef við hefðum Námsgagnastofnun þar sem útgáfa efnisins væri háð pólitískum straumlínum líðandi stundar, þar sem fimm alþingismenn hefðu sæti, einhverjir frá vinnumarkaðnum og frá háskólasamfélaginu og þetta fólk ætti allt saman að ákveða hverjar næstu námsbækur yrðu? Sumt á bara ekki að heyra beint undir ráðherra. Það þarf fólk sem hefur menntað sig í því að búa til námsgögn til að sjá um það hvað á að gefa út og hvað er við hæfi að gefa út. Hv. alþingismönnum er margt til lista lagt en það er ekki þar með sagt að þeir eigi að hafa sæti í nefndum sem eiga að sjá um námsgögn. Það er nauðsynlegt að dreifa valdinu. Við viljum ekki að námsgögn séu búin til með yfirlýstu pólitísku markmiði. Hið sama á að gilda um þróunarsamvinnu að mínu mati.

Þróunarsamvinnustofnun Íslands er stofnun sem er rekin af sérfræðingum á sínu sviði. Þróunarsamvinna er ekki pólitískt efni, þ.e. ekki flokkspólitískt efni, þetta eru fræði og það er ekki hlaupið að því hvernig ber að framkvæma slíka samvinnu. Ég held að ég hafi ekkert sérstakt vit á þróunarsamvinnu eða þekkingu, ekki frekar en að búa til námsgögn, og ég veit af minni stuttu þingreynslu að ef ég ætti að sitja í einhverri nefnd sem ætti að sinna stefnumótun um alþjóðlega þróunarsamvinnu væri það ekki innan minnar sérfræðiþekkingar.

Getur hæstv. utanríkisráðherra sagt mér hversu margir vinnudagar á ári liggja að baki í starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands? Hvernig eiga hv. samþingsmenn mínir að hafa tíma til þess að sinna þessu miðað við núverandi álag? Eftir því sem ég skil best, hæstv. ráðherra er auðvitað velkomið að leiðrétta mig, er starf innan Þróunarsamvinnustofnunar Íslands full vinna. Munu þessi stöðugildi og vinnan sem þeim fylgir fara beint inn í utanríkisráðuneytið? Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að tryggja að þessi stöðugildi muni skila álíka miklu til þróunarsamvinnu í klukkutímum og afköstum talið og hjá núverandi stofnun? Mun þetta ekki bara leiða til hlutfallslega minni afkasta vegna þess að starfsmenn utanríkisráðuneytisins muni alltaf þurfa að sinna því sem er í deiglunni í ráðuneytinu en ekki bara þróunarsamvinnu?

Það er mikilvægt að Þróunarsamvinnustofnun Íslands haldi því sjálfstæði sem hún hefur. Sem stofnun getur hún sent umsagnir til Alþingis um frumvörp sem lögð eru fram af bæði þingmönnum og ráðherrum um þróunarsamvinnu. Sem stofnun getur hún gefið út ítarlegri yfirlýsingar en ef hún breytist í þverpólitíska nefnd sem heyrir undir utanríkisráðherra. Hvað ef Námsgagnastofnun ætti í hagsmunaárekstri þegar hún sendir inn umsagnir um frumvörp um málefni skóla og námsgagna vegna þess að sama fólkið í menntamálaráðuneytinu og vann að frumvarpinu sæti í nefndinni? Þetta snýst nefnilega um valddreifingu. Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur staðið sig vel í öllum úttektum sem komið hafa fram og virðist vinna mikilvægt og þarft verk fyrir hönd Íslands í þróunarsamvinnu.

Hæstv. ráðherra minntist á það í síðustu viku á að við værum lítil þjóð, ef ég man rétt, og að við þyrftum að skilja að mikilvægt væri að hver og einn gæti verið með mörg járn í eldinum. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra aftur hvort það hafi verið einhver vandamál við að manna þessi störf stofnunarinnar og sinna þeim verkefnum sem hún hefur haft á sinni könnu. Er tilvist stofnunarinnar ekki bara atvinnuskapandi fyrir fólk sem hefur sérfræðimenntun á sviði þróunarsamvinnu og vill gera þetta að lifibrauði sínu? Sköpum við ekki með henni atvinnutækifæri á Íslandi fyrir háskólagengið fólk sem hefur sérfræðiþekkingu sem annars gæti ekki nýst hérlendis? Að mínu mati er hæstv. ráðherra að stuðla að atgervisflótta með því að leggja til að þessi stofnun verði lögð niður þar sem um er að ræða sérstök störf sem fólk hefur sérstaka menntun til að sinna. Í frumvarpi hæstv. utanríkisráðherra er ekki beinlínis gert ráð fyrir því og ég tel að pólitískt vægi einhverrar sérstakrar nefndar yrði fullmikið.

Í frumvarpinu er lagt til að ráðnir verði sérfræðingar tímabundið. Ég set spurningarmerki við það því það hlýtur að vera dýrara en að hafa þessa sömu sérfræðinga í vinnu sem væru örugglega hæfir til þess að gera hana að fullu starfi. Það að hafa fólk tímabundið í vinnu skapar meira atvinnuóöryggi fyrir það og því tekur það meira fyrir vinnu sína. Þá er hætta á því að starf Íslands að þróunarsamvinnu verði slitróttara þegar pólitíkin fær að ráða meiru en sérmenntað fólk á þessu sviði.

Virðulegi forseti. Ég er alfarið á móti því að þetta frumvarp fari í gegn. Þetta er eins og að reyna að gera Námsgagnastofnun að námsgagnanefnd þar sem pólitíkusar fá að stjórna því hvaða bók nemendur fá að lesa. Hlutverk stjórnmálamanna er að leggja stóru línurnar, útdeila fjármagni úr sameiginlegum sjóðum okkar og taka ákvarðanir og búa til lög. Þróunarsamvinna snýst um þróunarsamvinnu. Það snýst um að vera inni í alveg sérstakri orðræðu, gera sérstakar úttektir og rannsóknir á því sem hefur verið gert og hvað má fara betur. Þetta er sérfræðingastarf.

Vilji hæstv. utanríkisráðherra fá einhverja sérstaka þróunarsamvinnunefnd þætti mér það í sjálfu sér hið besta mál svo lengi sem það yrði gert samhliða rekstri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Það er ekki að sjá að þessi stofnun sé dýr né að það verði einhver sparnaður fólginn í því að leggja hana niður. Þetta er fyrst og fremst spurning um valddreifingu að Þróunarsamvinnustofnun Íslands sé við lýði.

Það vekur undrun mína hvernig þetta mál hefur verið lagt fram undir leiðsögn hæstv. utanríkisráðherra. Hann talaði eins og það mundi bara fara í gegn óbreytt, sama hvað. Þetta er lýsandi fyrir það vald sem framkvæmdarvaldið hefur hér á landi. Það er eins og ekki skipti máli hvað er sagt, hvaða rökum beitt, hvort höfðað sé til samvisku eða tölfræði eða nokkurs skapaðs hlutar, það virðist ekki skipta máli. Það haggast ekki. Þetta er kýrskýrt dæmi um það hvernig pólitík á Íslandi er í sífelldum átökum. Þetta þróunarsamvinnustofnunarmál er fyrst og fremst spurning um vald og samþjöppun á valdi. Það kemur mjög skýrt fram í röksemdafærslu hæstv. utanríkisráðherra að ástæðan fyrir því að hann vill flytja stofnunina undir ráðuneytið er sú að með því hafi ráðuneytið betri yfirumsjón með stöðu mála í þróunarsamvinnu á vegum Íslands. Þarna er verið að grafa undan sjálfstæði, grafa undan valddreifingu og fækka sjálfstæðum aðilum sem geta haft eftirlit með bæði löggjafar- og framkvæmdarvaldinu á málefnalegan hátt. Þessari samþjöppun á valdi er ég á móti og ég mun mæla gegn henni.