145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Þann 29. nóvember 2011 var samþykkt þingsályktun um viðurkenningu á sjálfstæði og fullveldi Palestínu. Þar var líka skorað á Ísraelsmenn og Palestínumenn að leita sátta með friðarsamningum á grundvelli þjóðarréttar og ályktana Sameinuðu þjóðanna. Ég stóð að þessari ályktun og tel hana vera góða, ég tel hana skipta máli.

Síðastliðinn þriðjudag samþykkti borgarráð að samþykkja viðskiptabann á Ísrael. Það þarf svo sem ekki að fara mörgum orðum um hversu slæm sú tillaga er og hversu mikil áhrif hún hefur á viðskiptahagsmuni Íslendinga en ég vil þó taka það fram að ég tel hana líka skaða þá þingsályktun sem var samþykkt á árinu 2011, hún vinnur í allar áttir.

Í hádegisfréttum RÚV og á forsíðu DV er bent á að Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, hafi haft samband við borgarstjóra og hæstv. forsætisráðherra og varað menn við að þarna mundi tapast hugsanlega um 17 milljarða kr. fjárfesting. Það eru engir smáhagsmunir í húfi og við sjáum því miður líka að þetta setur mark á ferðaþjónustuna.

Ég vil beina þeirri spurningu til formanns Samfylkingarinnar, Árna Páls Árnasonar, hver hans afstaða er. Nú virðist sem þessi tillaga hafi verið undirbúin í meira en ár. Hún var unnin í samráði við innkaupadeild Reykjavíkurborgar og borgarlögfræðing, segir flutningsmaður tillögunnar, en borgarstjóri er á harðahlaupum undan henni og segir að bréf bankastjóra hafi ekki haft bein áhrif. (Forseti hringir.) Ég spyr hv. þingmann: Hver eru hans viðhorf við þessu? Telur hann að það sé hægt með því að draga tillöguna til baka að verja þá gríðarlegu hagsmuni sem eru hér í húfi? (Forseti hringir.) Og kannski fyrst og fremst: Studdi hann tillöguna þegar hún var lögð fram í borgarráði? Ég tel rétt að formaður Samfylkingarinnar svari þessum spurningum.


Efnisorð er vísa í ræðuna