145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst segja að ég tel það mjög rökrétt og skynsamlegt af borgarstjóra að leggja til að draga þessa samþykkt til baka vegna þess að það þurfti að vinna hana betur. Það hefur komið í ljós, það hefur orðið ljóst af allri opinberri umræðu og þannig vinna alvörustjórnendur. Þeir moka sig ekki dýpra í holu þegar vandræði koma upp heldur leita þeir leiða til að bæta fyrir þau og gera tillögur betur úr garði.

Það sem vakti fyrir borgarstjórnarmeirihlutanum var að grípa til sértækra aðgerða í innkaupum borgarinnar á vörum frá landránsbyggðum á herteknu svæðunum. Það er í fullu samræmi við hvatningu sem við skrifuðum sameiginlega undir, ég og formenn norskra, sænskra og finnskra jafnaðarmanna, sumarið 2014 vegna ástandsins á herteknu svæðunum þá. Við hvöttum til að fundnar yrðu leiðir til að sérmerkja vörur og að eðlilegt væri að grípa til aðgerða gagnvart fyrirtækjum sem versluðu með vörur sem ættu uppruna sinn á hinum hernumdu svæðum.

Nákvæmlega sömu afstöðu tekur utanríkisráðuneyti Framsóknarflokksins í umsögn um tillögu sem lá fyrir þinginu um sérmerkingu á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu, með leyfi forseta:

„Utanríkisráðuneytið telur öll rök hníga að því að vörur sem framleiddar eru á hernumdu svæðum Palestínu séu merktar með viðeigandi hætti þannig að íslenskir neytendur séu upplýstir um uppruna þeirra.“ — Og það er mjög mikilvægt til þess að fólk geti tekið upplýsta ákvörðun.

Ég held að þingmaður sem styður viðskiptabann á Rússa til dæmis, sem kostar nú ýmislegt í viðskiptahagsmunum, þurfi aðeins að átta sig á því hvort afstaða hans sé byggð á pólitískum hráskinnaleik í þessu tiltekna máli eða hvort hún byggist á einhverjum prinsippum.

Ég segi fyrir mitt leyti að ég er ekki tilbúinn að standa hér og segja að eina ofbeldisaðgerðin sem ekki sé hægt að grípa til aðgerða gegn sé (Forseti hringir.) ofbeldi Ísraelsmanna gagnvart Palestínumönnum. Mér finnst eðlilegt (Forseti hringir.) að Íslendingar, jafnt einstaklingar, borgin og ríkið sjálft, hugleiði það með hvaða hætti þeir vilji fara með viðskipti með vörur sem eru unnar í skjóli mannréttindabrota á hinum hernumdu svæðum.


Efnisorð er vísa í ræðuna