145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Síðustu daga hefur komið fram að margir íslenskir bændur eru afar ósáttir við þann samning sem landbúnaðarráðherra gerði við Evrópusambandið um viðskipti með landbúnaðarvörur og formaður Félags kjúklingabænda hefur sagt að samningnum megi líkja við hálfgerðar náttúruhamfarir. Formaður Bændasamtakanna sagði að samningurinn hefði verið gerður án aðkomu samtakanna sem hlýtur að teljast vægast sagt frekar óheppilegt þegar svo mikið er undir eins og hér. Maður spyr sig: Hvers vegna varð þetta að gerast með þessum hraða og án samráðs?

Allt er þetta gert í nafni þess að vöruverð til neytenda lækki en ekki að verslunin græði. En um reynslu af því er fólk ekki sammála, þ.e. hvort þær lækkanir sem áður hafa átt sér stað á vörugjöldum eða virðisaukaskattslækkanir hafi að fullu skilað sér til neytenda. Um það má vitna til ASÍ og Neytendasamtakanna.

Vissulega fær Ísland verulega hækkun tollfrjálsra innflutningskvóta fyrir skyr, smjör og lambakjöt auk nýrra kvóta fyrir alifuglakjöt, svínakjöt og ost. En það er ekki nóg að auka bara framleiðsluna og búa til meira skyr ef bændur fá ekki viðunandi verð fyrir mjólkina. Ég hef áhyggjur af því að ekki liggi fyrir útreikningar eða úttektir sem styðja þennan gjörning, t.d. að sú tollalausa aukning sem heimila á á lambakjöti muni bæta hag sauðfjárbænda svo mikið að afkoma þeirra geti talist viðunandi.

Á Íslandi er lítil notkun lyfja þegar kemur að framleiðslu matvara og við gerum strangar kröfur um velferð dýra, strangari en í ESB-löndunum. Það eitt hlýtur að skerða samkeppnisstöðu bænda nema landbúnaðarráðherra ætli að bregðast við með einhverjum hætti. Við íslenskir neytendur þurfum að spyrja okkur hvort við viljum kaupa matvæli þar sem við vitum ekki nægilega vel um lyfjanotkun eða aðbúnað í framleiðslu og þrátt fyrir viðvaranir lækna og lýðheilsusérfræðinga þar um. Ég hef sent ráðheranum nokkuð ítarlega fyrirspurn (Forseti hringir.) um þetta mál sem ég vænti að hann svari með sambærilegum hraði og þessum samningi var komið á.


Efnisorð er vísa í ræðuna