145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég ætla að hrósa hæstv. utanríkisráðherra Gunnari Braga Sveinssyni og samstarfsfólki hans fyrir að ljúka samningum um lækkun tolla á landbúnaðarvörum.

Viðræðurnar hafa staðið nokkurn tíma með einhverjum hléum. Íslendingar áttu frumkvæðið að þessum viðræðum sem hófust formlega í ráðherratíð Össurar Skarphéðinssonar. Markmiðið var að auka útflutning á íslenskum afurðum til Evrópusambandsins, sérstaklega á lambakjöti og skyri. Og það tókst svo sannarlega. Kvóti á lambakjöti hækkar úr 1.850 tonnum á ári í 3.350 tonn, meira en tvöfaldast. Kvóti á skyri hækkar úr 380 tonnum í 4.000 tonn, meira en tífaldast. Það er sannarlega ánægjuefni fyrir framleiðendur, trúi ég.

Samningarnir fela í sér að Ísland fellir niður tolla á yfir 340 nýjum tollskrárnúmerum og lækkar tolla á yfir 20 öðrum. Neytendasamtökin fagna samningnum og það gera líka forsvarsmenn verslunar á Íslandi sem segja að hann muni hafa í för með sér miklar verðlækkanir sem er ánægjulegt fyrir okkur öll því matarverð hér á landi er allt of hátt. Samningurinn verður til að bæta hag heimilanna og við hljótum öll að fagna því.

Þó eru eftir tollar á einhverjum landbúnaðarvörum og ég vil hvetja ríkisstjórnina til dáða í þeirri ferð sem hún er á þannig að allir tollar hér hverfi. Ég er þeirrar skoðunar að tollar á landbúnaðarvörum séu ekki síður íþyngjandi fyrir fjölskyldurnar í landinu en tollar á skófatnaði, þó að auðvitað sé líka gleðilegt að losna við þá.


Efnisorð er vísa í ræðuna