145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að óska landsmönnum öllum til hamingju með frétt sem hefur farið lítið fyrir um lyktir Icesave-málsins sem lauk með fullnaðarsigri okkar Íslendinga nú fyrir nokkrum dögum. Það er sannarlega fagnaðarefni að hér skyldi vera vaskur hópur manna á sínum tíma sem barðist fyrir því að þessi niðurstaða næðist. Það var ekki þrautalaust og ýmislegt reynt til þess að koma í veg fyrir að svo gerðist. Ég sé að þetta hlægir nokkra þingmenn og ég gleðst yfir því því að við erum náttúrlega í pólitík til þess að gleðja fólk og þessi málalok hafa sannarlega glatt hug og hjörtu þjóðarinnar. Ég sé það bara á hv. þingmönnum hér á aftasta bekk að þær gleðjast yfir þessum málalyktum.

Erindi mitt hér í dag var annars að þakka hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur fyrir ræðuna sem hún flutti áðan. Mér fannst ég vera kominn á góðan félagsfund í framsóknarfélaginu fyrir norðan vegna þess að ég hefði getað tekið undir flest það sem hún sagði varðandi tollalækkanir sem hér hafa verið gerðar. Asinn var nú ekki meiri en sá í þessu máli að viðræðurnar hófust, eins og kom fram hér áðan, fyrir nokkuð mörgum árum en voru sem sagt til loka leiddar núna um daginn.

Það sem er hins vegar nauðsynlegt að gera nú þegar þessum áfanga er náð — og nota bene, hann hefði náttúrlega aldrei náðst ef við hefðum verið búin að fella hér niður alla tolla einhliða, við höfðum skiptimynt — er að koma á einhverjum sáttmála um það hvernig þetta verður framkvæmt. Það verður í fyrsta lagi að vera alveg kristalklárt að þessar lækkanir nái alla leið til neytenda. Það þarf að upplýsa núna um hvernig verðmyndun á Íslandi er. Við búum við frjálsa álagningu og til þess að neytendur geti tekið upplýsta ákvörðun verður að opna á það hvernig verðmyndun á vöru er hér alls staðar á markaði.


Efnisorð er vísa í ræðuna