145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Umræða um vanda flóttamanna, sérstaklega flóttamanna frá Sýrlandi, hefur aldeilis ekki farið fram hjá okkur. Sá sem hér stendur varð þeirrar gæfu aðnjótandi að ferðast um nágrannalöndin Tyrkland og Líbanon og svo Sikiley á Ítalíu í síðustu viku til að kynnast vandanum frá fyrstu hendi. Mig langar að vekja sérstaklega athygli á því að þó að við fáum flestar fréttir og myndir af flóttamönnum sem eru í Evrópu eða eru að koma til Evrópu býr langsamlega stærsti hluti flóttamanna frá Sýrlandi, talið er að það séu 4 milljónir en fjöldinn er í raun óljós, í nágrannalöndunum Tyrklandi, Líbanon og Jórdaníu.

Við hittum marga flóttamenn í Líbanon sem búa við mjög erfiðar aðstæður og kynntumst frá fyrstu hendi frábæru starfi stofnana og sjálfboðaliðasamtaka á borð við Rauða krossinn til að aðstoða fólkið, flóttamennina, í Líbanon.

Eitt verkefnið sem við heimsóttum var verkefni sem Rauði kross Íslands hefur stutt ásamt þeim norska um færanlegar sjúkrastöðvar þar sem hópur lækna og hjúkrunarfræðinga heimsækir staði einn dag í viku. Á staðnum sem við heimsóttum voru 5 þús. sjúklingar á sjúkraskránni.

Þessi verkefni hafa verið studd af stjórnvöldum, af utanríkisráðuneytinu, þ.e. Rauði krossinn á Íslandi hefur fengið styrk til að standa straum af þessu verkefni og ég vil endilega benda íslenskum stjórnvöldum og reyndar okkur sem íslenskum almenningi á mikilvægi þess að styðja við þjónustu á borð við þessa.


Efnisorð er vísa í ræðuna