145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í morgun var haldinn opinn fundur í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem umboðsmaður Alþingis var gestur. Umræðurnar þar voru rólegar, yfirvegaðar, málefnalegar og ég tel að þær hafi mjög ríkt upplýsingagildi fyrir þing og alþjóð.

Opnir nefndafundir hafa oft verið nefndir sem dæmi um eitthvað sem gæti aukið hinn svokallaða skrípaleik á Alþingi, þ.e. að ef nefndafundir væru að jafnaði opnir mundu þingmenn sjálfkrafa breytast í einhvers konar leikara og fara að búa til úr því einhverjar senur.

Ég tel að þeir opnu nefndafundir sem þegar hafa verið haldnir hafi almennt einkennst af yfirveguðum og málefnalegum umræðum. Ég fylgdist með fundinum í morgun og mér þótti hann mjög gagnlegur. Ég tel að ef ég væri borgari úti í bæ, með áhuga á Alþingi, hefði hann verið mér gagnlegur, ekki til þess endilega að fram komi einhver spillingarmál, opnir nefndafundir eru ekki endilega eitthvert gegnsæistæki, heldur tæki til að almenningur geti hlýtt á sérfræðinga utan úr bæ koma fram með gögn um einstaka mál.

Það er gagnlegt fyrir almenning að heyra þessa hluti og ég legg að lokum til, virðulegi forseti, að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.


Efnisorð er vísa í ræðuna