145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil taka upp þráðinn þar sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson lagði hann frá sér. Ég var svo lánsöm að vera á þessum fundi í morgun og mér finnst mjög mikilvægt að Alþingi kynni betur svona fundi. Ég held að mjög fáir hafi verið meðvitaðir um þennan fund nema þá kannski þingmenn og einstöku fréttamenn. Ég vil skora á almenning sem er að fylgjast með alþingisrásinni að fara og skoða þennan fund sem var í morgun því það kom mjög margt mikilvægt fram á honum.

Mig langar að grípa niður í frétt, með leyfi forseta, um þennan fund í morgun:

„Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði umboðsmann meðal annars með hvaða hætti embættið hefði brugðist við þessum aukna fjölda. Meðal vangaveltna hans var hvort það hefði komið til álita að senda stutt og stöðluð svarbréf þegar það lægi ljóst fyrir frá upphafi að málið yrði ekki kannað af embættinu.

„Fólk sem kvartar til umboðsmanns heldur að brotið hafi verið á rétti sínum og það hefur tekið sér tíma til að skrifa okkur bréf,“ sagði Tryggvi. Hann sagði að flestir þeir sem kvörtuðu til embættisins gerðu það sjaldan en þó væru dæmi þess að það ætti hálfgerða pennavini.

„Reynslan í nágrannalöndunum hefur sýnt að stutt og stöðluð bréf leiða til þess að málin koma bara aftur. Okkur hefur þótt það mikilvægt að borgarinn finni að við höfum lesið erindi hans og sendum útskýringu á niðurstöðu okkar. Við verðum að finna jafnvægi milli þess að sóa ekki tíma í þessi mál en útskýra niðurstöðuna engu að síður.““

Mér þætti alveg yndislegt ef fleiri stofnanir og embætti mundu sýna viðleitni borgaranna til að kanna rétt sinn jafn mikla virðingu og umboðsmaður Alþingis gerir.


Efnisorð er vísa í ræðuna