145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

tekjustofnar sveitarfélaga.

[14:25]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég hef starfað á báðum stjórnsýslusviðum, þ.e. bæði í sveitarstjórn og nú á Alþingi, og það hefur oft komið mér spánskt fyrir sjónir hvernig umræðan um sveitarfélög annars vegar og ríkissjóð hins vegar vill þróast út í að þetta séu tvö ólík apparöt, eins og óskyld fyrirtæki eða eitthvað. Fyrir mér er í grunninn bæði ríkissjóður og sveitarfélög ákveðinn tvíhöfði, tvö andlit á því sama sem við mundum kalla opinberan rekstur, opinberar tekjur og þjónustu og skyldur, sem tvö lýðræðislega kjörin stjórnsýslustig stýra síðan. Mér hefur alltaf fundist erfið umræðan hvor úr sinni áttinni eins og annar aðilinn sé að sækja eitthvað til hins eða annar aðilinn sé að troða á hinum.

Við lifum þessi árin við ansi miklar breytingar í íslensku þjóðfélagi, ekki bara í afkomu bæði sveitarfélaganna og ríkissjóðs, sem við sjáum að hefur tilhneigingu til að hækka og lækka, stundum til skiptis, heldur líka í íslensku atvinnulífi, íslenskum viðskiptum, efnahagslífinu. Við sjáum með gríðarlegum uppgangi ferðaþjónustunnar breytingu í tekjum ríkisins og einstakra sveitarfélaga. Mér finnst mikilvægt að við tökum tillit til slíkra breytinga. Við sjáum líka núna í tillögum með fjárlagafrumvarpinu breytingar á skattkerfinu, á skatttekjum ríkissjóðs og það er mikilvægt að báðir aðilar, sveitarfélögin og ríkissjóður, sitji saman og séu helst í endalausu ferli við að endurskoða hvernig þessum tekjum verður síðan skipt. Ég hvet hæstv. ráðherra til að taka þátt í slíkri vinnu.