145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

tekjustofnar sveitarfélaga.

[14:27]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Þetta er svo sem gamalkunnug umræða og ég velti fyrir mér af hverju hún kemur sérstaklega upp núna. Nú er það þannig að ólíkt ríkissjóði þá hafa sveitarfélögin mjög trausta tekjustofna og það hefur verið farið í það seinustu ár og missiri að treysta þá enn betur, þ.e. með hækkun á útsvarinu og með auknu fé í jöfnunarsjóð þannig að það er svolítið sérstakt að þessi umræða skuli blossa upp núna.

Sennilega er skýringin sú að fyrirhugaðar eru mjög miklar hækkanir á launum sem munu verða sveitarfélögunum erfiðar. Einhvern veginn hefur maður grun um að þessi umræða tengist svolítið Reykjavíkurborg núna en öfugt við flest önnur sveitarfélög hér í nágrenninu er staða borgarsjóðs að versna þrátt fyrir gífurlega auknar tekjur og reksturinn í molum, má segja. Þá blossar upp þessi umræða um aukna tekjustofna.

Á sama tíma og menn gera kröfur um að ríkið dæli enn meiri peningum í hina og þessa málaflokka þegar það er nánast rétt svo í jafnvægi með ríkisfjármálin þá er kannski ekki hægt að segja að miklir möguleikar séu á að færa tekjur frá ríkinu yfir í sveitarfélögin nú um stundir. Ég held að menn verði einfaldlega að fara yfir rekstur sinn í sveitarfélögunum, sérstaklega hjá Reykjavíkurborg, og meta stöðuna upp á nýtt.