145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

tekjustofnar sveitarfélaga.

[14:30]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Auðvitað verður að tryggja sveitarfélögum þá fjármuni sem þarf til að standa undir þeim verkefnum sem þeim eru falin með lögum. Það er okkar verkefni að setja lög og það er okkar hér að segja til um hve mikið fer hvert. Það er eðlilegt að það sé rætt hér. Sérstaklega þarf að huga að því þegar stórir málaflokkar eru færðir frá forræði ríkisins til sveitarfélaganna.

Eins og við öll vitum eru sveitarfélögin mjög ólík og misjöfn að styrk. Þess vegna þarf að sýna sérstaka varkárni þegar verkefni eru færð til. Ætla má að sveitarfélögin séu oft betur til þess fallin að veita nærþjónustu sem fólk þarfnast en á hinn bóginn er styrkur þeirra til að veita slíka þjónustu misjafn. Þess vegna þarf að hafa sérstaka gát í þessum efnum svo hægt sé að tryggja öllum landsmönnum bestu þjónustu og það þarf að nota jöfnunarkerfin til þess.

Kannski er ekki hyggilegt að hringla mikið í tekjustofnum sveitarfélaga en það þýðir ekki að ekki megi hreyfa við þeim eða breyta þeim. Sveitarfélög fá hvorki hlutdeild í skattlagningu fyrirtækja né arðgreiðslum til eigenda þeirra. Samtök sveitarfélaga horfa sérstaklega til þess að sveitarfélögin fái hlutdeild í tekjum hins opinbera af hagnýtingu auðlinda, svo sem vegna raforkuframleiðslu, ferðaþjónustu og fiskeldis eða fiskveiða.

Það þarf sérstaklega að bregðast við þegar verkefni sveitarfélaganna stökkbreytast eins og gerst hefur með sprengingunni sem orðið hefur í ferðaþjónustu. Opinberar tekjur af ferðaþjónustu koma fyrst og fremst af virðisaukaskatti sem sveitarfélögin eiga enga hlutdeild í. Viðfangsefni sveitarfélaganna vegna ferðaþjónustunnar eru ólík. Úrlausnarefnin eru ekki þau sömu í Reykjavík, Rangárþingi eystra eða í Skútustaðahreppi, en þau eru öll jafn brýn og það þarf fjármagn til að fást við þau. Það er því áríðandi að bregðast við þessu.