145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

tekjustofnar sveitarfélaga.

[14:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekkert sjálfgefið varðandi það hvernig tekjum er skipt milli ríkis og sveitarfélaga. Mér finnst ekki sjálfgefið að við höfum staðgreiðsluskattana með því fyrirkomulagi sem við höfum í dag. Ég hef lagt mig töluvert eftir því að greina það og koma aðeins inn á það hér og vísa í kynningarefni með fjárlagafrumvarpinu til frekari greiningar á því hvernig það skiptist. Niðurstaða mín þar er sú að útsvarið sé mjög traustur tekjustofn fyrir sveitarfélögin. Ókosturinn við það fyrirkomulag fyrir ríkið er að það standi ávallt upp á ríkið að gera breytingar til þess að létta undir með fólki í staðgreiðslunni en ríkið tekur óskaplega lítið í skatt af þeim sem minnst hafa á milli handanna. Mér finnst það því ekkert sjálfgefið, ég held að það séu jafnvel fleiri kostir en gallar við staðgreiðslukerfið fyrir sveitarfélögin og þar af leiðandi væri jafnvel meiri ávinningur af því fyrir ríkið að gera breytingar þar á, en það færi þá alltaf eftir því hvað kæmi í staðinn.

Ég er alveg opinn fyrir umræðu um þetta mál en mér finnst mikilvægt að koma tvennu að hér. Það er rétt að afkoma ríkisins er að batna en hagsveifluleiðrétt hefur afkoma ríkisins kannski ekki batnað nein ósköp. Það er hagsveifla í gangi og það er eðlilegt að þá batni afkoman og vaxi eitthvað, en ég held að þegar við greinum það nánar hagsveifluleiðrétt sé ekki mikill vöxtur í afkomunni í sjálfu sér. Það vildi ég að menn hefðu í huga.

Síðan er hitt. Auknum tekjum ríkisins er deilt með sveitarfélögunum í gegnum jöfnunarsjóðinn og þar munar mjög miklu. Svo hafa fallið til mjög stórar aðgerðir sem nýst hafa sveitarfélögunum til aukinnar tekjuöflunar á undanförnum árum. (Forseti hringir.) En þetta er og verður áfram verðugt viðfangsefni. Ég get ekki sagt að (Forseti hringir.) ég finni fyrir því í mínu starfi að það heyrist einhver sterk rödd með ákveðinni kröfu frá sveitarfélögunum um þessar mundir (Forseti hringir.) en þetta er hins vegar mál sem þarf ávallt að hafa augun á. Ég þakka fyrir umræðuna.