145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[14:58]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Ég tek undir að það verður eðlisbreyting, það má ekki misskilja mig, vissulega veldur það eðlisbreytingu ef þetta nær fram að ganga, svo það sé sagt, ég er alveg sammála því. En mér finnst við hér vera samt að ræða pínulítið utanumhaldið en ég vildi vera að ræða innihaldið. Það var það sem ég átti við áðan.

Ég tek alveg undir það og það hefur áður komið fram í minni ræðu og líka þegar við töluðum um þetta síðast að sérhæfingin er mikil. Það er viðbúið að einhverjir starfsmenn fari með inn í ráðuneytið, aðrir ekki. Það er ekkert fast í hendi hvað það varðar. Ég hef líka áhyggjur af því að það er mikil togstreita á milli Þróunarsamvinnustofnunar og utanríkisráðuneytisins um þetta mál. Það gæti valdið því að við misstum gott fólk sem annars væri tilbúið til að halda áfram að starfa. Ég hef áhyggjur af því að það þurfi að byrja svolítið upp á nýtt með ansi margt þegar starfseminni verður komið fyrir í ráðuneytinu, þótt ég ætli ekki að halda því fram að það verði byrjað á núllpunkti, en það getur farið töluvert púður í það að stilla starfseminni upp, hvernig best verði að vinna þetta, þegar hún verður komin í ráðuneytið.

Það er líka eiginlega alveg óskiljanlegt eins og við höfum rætt hér af hverju ekki er hægt að bíða niðurstöðu DAC. Ráðherrann hefur ekki svarað því með viðunandi hætti. Það er það fyrsta. Síðan þarf í svona máli, eins og gert var síðast þegar lögunum var breytt, 2008 líklega, pólitískt samráð. Það þarf þverfaglegt pólitískt samráð þar sem fólk kemst að einhverri tiltekinni niðurstöðu en ekki svona fyrir fram ákveðinni niðurstöðu eins og hér virðist því miður vera undirliggjandi því það er ekki margt sem styður þessa breytingu.