145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:26]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Af því að við vorum að tala áðan um almennar tilhneigingar í breytingum á Stjórnarráðinu og uppbyggingu stofnana og hv. þingmaður sagði sem svo að væntanlega mundi rifjast enn þá fleira upp ef við færum að lengja þessa umræðu, þá er það auðvitað svo að við erum að tala um hvert málið á fætur öðru og er skemmst að minnast frumvarps hæstv. forsætisráðherra í vor sem leið, og reyndar er annað frumvarp sagt vera í farvatninu núna, sem snýst hvort tveggja um það að draga til sín vald, að ráðherrar dragi til sín vald með sérstökum frumvörpum og lagabreytingum. Mér finnst það gerast í hverju málinu á fætur öðru og af hendi hæstv. utanríkisráðherra til að mynda þegar hann kom hér með sérstaka þingsályktunartillögu í fyrra um að draga umsókn að Evrópusambandinu til baka, þá er í raun og veru verið að horfa fram hjá þeirri grundvallarstaðreynd í íslenskri stjórnskipan að ráðherrarnir sitja í umboði Alþingis. Þeim er ekki heimilt að aðhafast neitt annað en það sem þeir hafa fengið umboð til frá Alþingi. Pýramídinn snýr þannig að Alþingi er yfir ráðherrunum. Ráðherrarnir geta ekki gert neitt annað eða látið sér detta neitt annað í hug en það sem rammi Alþingis felur þeim eða heimilar þeim að gera.

Þess vegna finnst mér það vera mikilvæg rödd okkar megin frá að við gætum mjög vel að því þegar ráðherrann kemur með tillögur eins og þá sem hér er og eins og þá sem snýst um og lýtur að þróunarsamvinnunefnd, og ég er sammála því sem hv. þingmaður segir að það má auðvitað horfa fyrst og fremst til yfirstjórnar stofnunarinnar ef það er verkefnið. Það er allt í lagi að gera það. En þetta er enn önnur megintilhneiging sem við sjáum hjá hæstv. ríkisstjórn, þ.e. að forðast valddreifingu og draga völdin til sín.