145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:31]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er nú svo, eins og hér hefur áður komið fram okkur til gleði og ríkisstjórninni til leiðinda, að við erum komin á seinni hálfleik þessa kjörtímabils. Þá fer auðvitað að sneyðast um færi hæstv. ráðherra að láta eitthvað eftir sig liggja en um leið fer að stífna nokkuð bókhaldið hjá okkur sem erum á vaktinni. Við fylgjumst með því sem ráðherrarnir koma með til þingsins og vegum það og metum í pólitísku samhengi, eins og hæstv. ráðherra er að gera hér.

Ég hef tilhneigingu til að segja sem svo að utanríkisráðherra á þeim tímum sem nú eru, með allar þær blikur á lofti sem eru í alþjóðamálum, sama hvort maður horfi til norðurskautsmála eða norður-/suðurmálanna, sem hefur ekkert stærra, mikilvægara eða merkilegra erindi en frumvarp til laga um að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun Íslands, mér finnst að það megi efast um erindi hans í stjórnmálum yfirleitt. Það minnir mig óþyrmilega á hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem kom hér með náttúrupassafrumvarp á síðasta þingi og síðan hefur lítið af henni frést. Ef hæstv. ráðherra ætlar að halda þessu máli til streitu sem sínu stóra framlagi til kjörtímabilsins virðist mér sem hann sitji þá uppi með ámóta eftirmæli.