145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:33]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra hafði auðvitað erindi í stjórnmálin. Hann sýndi það og sannaði svo ekki var um villst á síðasta kjörtímabili. Ég minnist þess að ég sagði það einhvern tíma í umræðum að hér væri sprottið fram uppvaxandi utanríkisráðherraefni Framsóknarflokksins. Ég batt við hann ákveðnar vonir. Ég tel fullkomlega eðlilegt að hæstv. ráðherra hafi aðra skoðun en ég til dæmis varðandi ESB. Það var erindi hæstv. ráðherra, það var að stöðva ESB-umsóknina. En hvernig tókst honum það? Jú, hæstv. ráðherra hvíslar stundum út í tómið að búið sé að stöðva umsóknina. Hún er ekki meira stopp en það að fyrir liggur að ný ríkisstjórn getur tekið hana upp hvenær sem hún vill.

Ég nefni þetta sem dæmi um það að mér finnst aðeins vanta á staðfestuna í því sem hæstv. ráðherra gerir, þótt ég sé ekki endilega að biðja um að hann reyni að finna hana aftur og beita í því máli sem ég nefndi áðan. En mér finnst að hæstv. ráðherra eigi að taka utan um málaflokka eins og þróunarsamvinnu og þá stofnun sem við erum að ræða vegna þess að það gerir enginn annar. Þetta eru vanræktir málaflokkar. Þeir hafa alltaf legið hjá. Þess vegna á sá sem er falinn sá trúnaður að gæta þeirra að sinna þeim af einurð, hlýju og kærleika. Það finnst mér hæstv. ráðherra ekki hafa gert.

Í þessu máli liggur fyrir að það á að leggja niður stofnunina, en á hvaða rökum? Ekki á faglegum rökum vegna þess að hið faglega atgervi í landinu hefur sagt: Nei. Þvert á móti á að styrkja hana og setja yfir í hana verkefni sem eru hjá ráðuneytinu núna. Ekki af fjárhagslegum ástæðum. Það liggur fyrir af hálfu hæstv. ráðherra að þetta sparar ekki krónu. Hverjar eru efnislegu röksemdirnar? Það er búið að spyrja hæstv. ráðherra um þær í tvö ár og þær hafa ekki enn þá komið. Þetta eru bara duttlungar. Hæstv. ráðherra var plataður til að flytja þetta mál af embættismönnum sínum sem vildu safna auknum valdþráðum inn í ráðuneytið og hann sleppur ekki úr þessari prísund. En hann er líka sjálfur búinn að koma sér í þá stöðu að hann hefur ekkert annað mál. Þetta er ástæðan. (Forseti hringir.) Hún er dálítið sorgleg fyrir mann sem er jafn vaskur að upplagi.