145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:35]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er svo sem ekki miklu við það að bæta sem hv. þingmaður fór yfir en ég vil taka undir þau meginsjónarmið, eins og ég vék að í máli mínu áðan, að þróunarsamvinna er málaflokkur sem ber að umgangast af varfærni, sem ber að umgangast af virðingu. Eins og ég rakti í máli mínu þegar við töluðum um málefni útlendinga og þróunarsamvinnumál þá eru það málefni sem krefjast þess að ákvarðanir þoli kosningar og lifi af kjörtímabil, vegna þess að þar erum við að tala um sameinaða ásýnd Íslands gagnvart umheiminum.

Það reynir á hæstv. ráðherra í svona málaflokki og það kemur í ljós í máli eins og þessu úr hverju menn eru gerðir, hvert hið pólitíska efni er sem menn eru gerðir úr. Það sem hv. þingmaður reifaði hér um erindi og erindisleysu, af því að það var það sem ég nefndi andsvari mínu, er að erindi og erindisleysa snýst ekki um það hvort menn eru sammála eða ekki sammála. Það snýst um það hvort menn hafi eitthvað fram að færa. Ef þetta er það eina sem hæstv. ráðherra hefur fram að færa, þ.e. þetta mál sem hefur komið ítrekað fram hér að hver utanríkisráðherrann á fætur öðrum hefur fengið á sitt borð í gegnum söguna og hafa velflestir afgreitt sem einhverjar innanhússóskir sem menn hafa ekki viljað verða við, ef það er það eina sem ráðherrann hefur fram að færa og hefur fram að leggja til þingsins er það frekar aumt framlag.