145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:38]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Þetta er nú svolítið déjà vu, sagði ágætur maður við mig um helgina um umræðuna um Þróunarsamvinnustofnun sem var hér í síðustu viku og átti þá við að hér væri nokkuð verið að endurtaka það sem fram kom í umræðum um þetta sama málefni á síðasta þingi. En ég spyr: Hvernig í ósköpunum á annað að vera hægt þegar hér er flutt frumvarp sem er algerlega óbreytt, óheillafrumvarp sem er óbreytt frá því að það var flutt á síðasta þingi? Það er ekki tekið nokkurt einasta tillit til umsagna eða gesta sem komu fyrir utanríkismálanefnd þar sem mikið var spurt og mikið talað. Það kom fram í umræðu í síðustu viku, sem var þó ekki endurtekning á því sem fór fram í fyrra, að einn nefndarmaður, hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason, skildi ekkert í því af hverju það ætti að ráðast í þessa ráðstöfun því ekkert hefði komið fram í störfum utanríkismálanefndar í fyrra sem færði gild rök að því að það væri gert.

Við hljótum því að koma á framfæri skoðunum okkar á þessu máli og þær hafa ekki breyst frá því í fyrra þannig að við hljótum að endurtaka andstöðu okkar við þessa tillögu, ekki síst vegna þess að núna erum við hálfu ári nær því að svonefnd jafningarýni Þróunarsamvinnustofnunar OECD verði framkvæmd en það er áætlað að framkvæma hana árið 2016. Núna er hálfu ári styttra í að við höfum hana í höndunum en var í mars á síðasta ári þannig að það er óskiljanlegt af hverju ekki er hægt að bíða eftir því sem fram kemur í henni og fara eftir því þegar þetta verður endurskoðað.

En getur það verið að hæstv. utanríkisráðherra vilji fyrir alla muni að þessi óheillabreyting verði gerð á fyrirkomulagi Þróunarsamvinnustofnunarinnar áður en jafningjarýnin fer fram? Getur það verið? Er það virkilega svo? Það hefur komið fram í umræðum að þetta hafi í mörg ár verið mikið áhugaefni embættismanna í utanríkisráðuneytinu. Getur verið að nú þrýsti þeir enn meira á ráðherrann að hann drífi sig í þetta verk áður en jafningjarýnin liggur fyrir? Eða er það svo, sem ég trúi nú varla, að þetta sé stærsta mál ráðherrans á þessu ári? Ég vil ekki trúa því vegna þess að hæstv. ráðherra flutti í fyrra þingsályktunartillögu um að hér yrðu samþykkt atriði í þjóðaröryggisstefnu og það finnst mér mikilsvert og ég hefði vonað að ráðherrann héldi áfram á þeirri braut. Þó að það hafi verið tiltölulega breið sátt um þá stefnu þá vill fólk örugglega ræða hana og ég held að það skipti meira máli að ræða það mál en þetta. Ég verð því að lýsa vonbrigðum mínum með forgangsröðunina hjá hæstv. ráðherra ef ég má orða það svo.

Það er athyglisvert, eins og hefur verið nefnt ítrekað í þessum umræðum, að hér á að leggja niður stofnun sem enginn hefur kvartað yfir, sem þykir alls staðar standa sig vel, sem Ríkisendurskoðun gefur besta einkunn. Menn sem til þekkja telja að það sé heppilegra að stofnun af þessu tagi sé ekki alveg inni í embættismannakerfinu heldur sé hún sérstofnun. Þó að það þekkist kannski einhvers staðar að slík starfsemi sé í ráðuneytunum þá eru það stærri ráðuneyti þar sem hún er meiri sérdeild og aðskilin frá hinum hefðbundnu málefnum utanríkisþjónustunnar.

En svo hefur komið fram, það kom fram í upphafi umræðunnar, að það virðist vera sérstakt áhugamál ráðherrans að losna við forstöðumann stofnunarinnar. Samt sem áður lofar ráðherra hann í hástert, en honum hefur engu að síður verið tilkynnt að hann fái ekki inni í utanríkisráðuneytinu ef af lagabreytingunni verður. Þó stendur í greinargerð með frumvarpinu að öllum starfsmönnum stofnunarinnar verði boðin sambærileg störf í ráðuneytinu nema þessum eina og af hverju í ósköpunum er það? En nákvæmlega þetta atriði virðist mér vera það eina sem hefur komið nýtt fram í þessari umræðu frá því sem var í fyrra.

Sumir hafa látið að því liggja að þetta stafi kannski af því að forstöðumaðurinn og starfsmenn stofnunarinnar lágu ekkert á skoðunum sínum í samtölum við utanríkismálanefnd á síðasta þingi. Ég skal ekki um það segja, en það er ekki gott ef embættismönnum getur dottið það í hug eða finnst þeir ekki geta sagt það sem þeir telja réttast og best af ótta við að stuggað sé við þeim af yfirmönnum þeirra eða ég tala nú ekki um að missa vinnuna. Við viljum alls ekki vera í slíkri umhverfi, virðulegi forseti. Ég trúi ekki öðru en við séum að minnsta kosti flest sammála um það.

Í Þróunarsamvinnustofnun er unnið mjög merkilegt og mikilvægt starf en eins og hefur komið fram áður þá er það allt annars eðlis en það starf sem unnið er í utanríkisráðuneytinu. Þar er einnig unnið mjög mikilsvert starf en að sama skapi allt annað en unnið er í Þróunarsamvinnustofnun. Auðvitað mótar utanríkisráðherra stefnu í þróunarmálum þó að Þróunarsamvinnustofnun sé ekki í ráðuneytinu og auðvitað má hugsa sér að hann geri það í nánari samstarfi við Alþingi og sérfræðinga frá borgarasamtökum eða úr háskólasamfélaginu. En það eru sérfræðingar sem eiga að framkvæma stefnuna.

Í frumvarpinu er lagt til að sett sé á stofn sérstök þróunarsamvinnunefnd. Hún á að vera 15 manna og skipuð til fjögurra ára. Ráðherra skipar fulltrúana og gerir það með eftirfarandi hætti: Formaður nefndarinnar er skipaður án tilnefningar og skal hann sérfróður um þróunarmál og hafa reynslu á því sviði. Fimm fulltrúar úr hópi alþingismanna skulu kosnir af Alþingi. Fimm fulltrúar skulu skipaðir að höfðu samráði við íslensk borgarasamtök sem starfa að alþjóðlegri þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð, tveir fulltrúar skulu skipaðir að höfðu samráði við samstarfsnefnd háskólastigsins og tveir fulltrúar skulu skipaðir í samráði við aðila vinnumarkaðarins.

Virðulegi forseti. Ég hef áður við þessa umræðu, og það hefur komið fram í andsvörum sem ég hef átt við þingmenn, lýst undrun minni á þessum fimm fulltrúum úr hópi alþingismanna. Ég held að það séu fáir málaflokkar sem geti verið jafn þverpólitískir og þróunarsamvinnan. Í ræðu sinni áðan fór hv. þm. Svandís Svavarsdóttir mjög vel yfir muninn á vinnubrögðum að þessu leyti þegar verið var að skoða innflytjendamál og mál flóttamanna og þáverandi hæstv. innanríkisráðherra Hanna Birna Kristjánsdóttir setti á stofn nefnd og í hana var skipaður einn frá hverjum flokki til að hafa sjónarmið allra. Í þessu frumvarpi er lagt til að í þróunarsamvinnunefnd verði fimm þingmenn. Miðað við þá flokka sem eru nú á þingi þá er það ekki einn frá hverjum flokki. Kannski eiga að vera fleiri þingmenn frá stjórnarmeirihluta eða stjórnarandstöðu, hvað veit ég, en óskaplega þætti mér það óviðeigandi ráðstöfun um yfirstjórn yfir Þróunarsamvinnustofnun. Ég furða mig líka á því að ekki sé hugsað til þess að þingflokkar eru hér sex núna og þeir geta vel orðið færri og þeir geta svo sem líka orðið fleiri þannig að mér finnst þetta atriði, fimm fulltrúar frá Alþingi, mjög óskiljanlegt.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherrann kynni skýrslu fyrir Alþingi og kynni síðan hann aðgerðaáætlun fyrir Alþingi. Ég held að við ættum að skoða þetta dæmi allt saman miklu betur áður en við förum að leggja stofnunina niður eins og hér er lagt til. Ég held að þingið færist ekkert nær þróunarmálum jafnvel þó að einn úr hverjum þingflokki sitji í þróunarsamvinnunefnd. Það virkar ekki þannig, forseti. Þingið væri miklu nær þessari stofnun ef það væri árviss venja að gefa skýrslu um stofnunina og um hana yrði fjallað í þinginu. Gefinn væri klukkutími eða tveir í það og síðan yrði aðgerðaáætlun kynnt, kannski annað hvert ár, það gæti verið passlegt og þá tækju allir þingmenn þátt í því hér í þingsalnum. Það að senda einn og einn mann eða tvo úr hverjum þingflokki skapar ekki neina sérstaka nánd milli þingsins og þessa málaflokks. Það virkar ekki þannig. Ég hélt kannski að ráðherrann áttaði sig á því.

Þetta eru vangaveltur mínar. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur lagt til við þessa umræðu að við látum okkur nægja að sinni að fjalla bara um yfirstjórnina og hvernig megi færa Þróunarsamvinnustofnun nær þinginu eins og mér sýnist vera einhver hugsun um í frumvarpinu, fjöllum um það en látum aðra þætti eiga sig og bíðum jafningjaúttektarinnar og gerum þá heildarendurskoðun á allri uppbyggingunni þegar hún liggur fyrir. Það er ekki langt í það, kannski bara hálft ár en því miður virðist ýmislegt benda til þess að ráðherrann vilji umfram allt hafa lokið þessu óheillaverki áður en sú jafningjaúttekt liggur fyrir.

Ég get ekki látið hjá líða að taka undir það sem kom fram í síðustu viku í máli einhverra þingmanna um viðhorf ráðherrans til valdsins, hvernig hann leggur þetta fyrir án þess að eiga um það samráð við nokkurn mann, án þess að fara að nokkru því sem fram kom í utanríkismálanefnd á síðasta vetri, er nú þegar búinn að segja forstöðumanninum að hann verði ekki ráðinn og hann fái ekki vinnu í utanríkisráðuneytinu. Ráðherra fór á síðasta sumri í ferð til þróunarlanda og hafði engan í Þróunarsamvinnustofnun með í fylgdarliði sínu, bara eins og búið sé að leggja hana niður af því að hann ætlar að gera það. Þá heldur hann að það sé búið og gert en þannig er það ekki, virðulegi forseti.