145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:56]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Já, fjarvera stjórnarþingmanna frá þessum umræðum ber í besta lagi vott um mikið áhugaleysi á þessum málum og raunar kannski engan áhuga. Fjarveran núna er kannski svolítið meira æpandi en áður vegna þess að hér hefur bókstaflega ekki sést einn maður held ég, svei mér þá, nema hvort hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson kom upp í andsvör eða ræðu þegar umræðan var rétt að byrja kl. 8 að kvöldi til af því að það lá svo mikið á með málið í byrjun þings, þá var mælt fyrir því kl. 7 eða 8 um kvöldið. Þetta er mjög sérstakt tel ég vera.

Ég veit það ekki, en ég hef stundum velt fyrir mér — sviðsetningin hérna í þingsalnum er náttúrlega kostuleg. Menn hafa bent á að ráðherrarnir sitji hér á bekkjum, sitja eins og dómarar eða yfirmenn frekar en eitthvað annað en ættu náttúrlega að sitja á meðal þingmanna. Þannig ætti það náttúrlega að vera í lýðræðisríkjum. Ég velti því stundum fyrir mér hvort menn ruglist svolítið í ríminu út af sviðsetningunni. Ég á marga vini sem eru sendiherrar og hlógu stundum að því að vera ávarpaðir „your excellency“. Stundum fannst manni eins og sumum þeirra fyndust þeir svolítið vera það, en það var nú allt í gríni.