145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:58]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst alveg ástæða til að velta aðeins upp umræðuhefðinni eða kannski skorti á umræðu þar sem takast á ólík pólitísk sjónarmið. Ég hef alla vega tekið eftir því að miklu minni skoðanaskipti eiga sér stað en ég átti von á að hér yrðu og sakna hreinlega oft hinnar pólitísku umræðu. Svo allrar sanngirni sé gætt á það ekki bara við um þetta mál, það á við um mörg fleiri mál en það á svo sannarlega líka við um þetta mál.

En svo við komum okkur kannski aftur að því frumvarpi sem er til umræðu þá hefur verið talað um það í umræðunni, sem stjórnarandstaðan hefur staðið fyrir, að hér sé verið að toga þróunarsamvinnuna inn í pólitískan farveg með þessum breytingum. Ég hef sett fram mikil spurningarmerki við það hvort sniðugt sé að blanda saman utanríkisstefnu, eins og t.d. utanríkisviðskiptum og svo þróunarsamvinnu, og hef spurt þeirrar spurningar: Hverjum er það til hagsbóta? Er það líklegt að vera til hagsbóta fyrir fátækan almenning í löndum sem þiggja aðstoð í formi þróunarsamvinnu eða gæti það verið til hagsbóta fyrir íslensk fyrirtæki sem gætu þar fengið sóknarfæri?

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún sé sammála mér í því að ef frumvarpið verður samþykkt með þeim breytingum sem verið er að leggja til, þ.e. leggja niður Þróunarsamvinnustofnun, með fimm manna þingmannanefnd, hvort við þurfum ekki að hafa þennan þátt í huga, hvort við séum að fara inn á varasamar brautir.