145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:27]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst það skipta máli í þessari umræðu og hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir að starfskraftar forstöðumanns ÞSSÍ verði nýttir jafnvel þó svo fari að þetta frumvarp verði samþykkt. Það skiptir máli vegna þess hvernig umræðan hefur verið af hálfu hæstv. ráðherra. Hún hefur öll verið á þann veg að nauðsynlegt sé að leggja niður stofnunina vegna þess að hún fari ekki algerlega í takt við utanríkisstefnuna, vegna þess að um tvíverknað sé að ræða og skörun.

Það sem var merkilegt við ræðu hæstv. ráðherra var vitaskuld að þeim spurningum sem komu fram í hverri einustu ræðu stjórnarandstöðunnar hér og lutu einmitt að þeim efnum sem hæstv. ráðherra gerði að röksemdum í framsögu sinni var ekki svarað. Ekkert kom fram um að einhverjar sérstakar faglegar ástæður væru fyrir því að nauðsynlegt væri að leggja niður stofnunina. Engar aðrar efnislegar röksemdir voru færðar fram í svarræðu hæstv. ráðherra um hvers vegna. Engar fjárhagslegar forsendur voru lagðar upp sem rök fyrir því.

Hæstv. ráðherra vísar enn og aftur í DAC-skýrsluna. Á einum stað er þar talað um nauðsynlegt sé út af tilgreindu efni að skoða fyrirkomulagið. En hvaða efni var það? Jú, það kemur fram í umsögn ÞSSÍ þar sem er upplýst að starfsmenn stofnunarinnar hafi verið á þeim fundum þar sem um þetta var rætt, það er vegna þess að svo hátt hlutfall fjárframlaganna sem fara til tvíhliða verkefna fer í gegnum ráðuneytið. Því vildi DAC greinilega breyta. Að öðru leyti voru allar ábendingarnar sem var að finna í DAC-skýrslunni byggðar á því að stofnunin væri að fá miklu meira fé og hvernig hún ætti að takast á við það. Það varð ekki raunin.

Það er síðan ekki alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra að ekkert nýtt hafi komið fram frá því þetta frumvarp var lagt fram. Það sem er nýtt er m.a. það að hið faglega atgervi í landinu, þ.e. (Forseti hringir.) félagsvísindasvið HÍ, hefur veitt álit um þetta frumvarp og niðurstaðan er algjörlega afdráttarlaus, (Forseti hringir.) það er á móti því, telur rangt að stofnunin sé lögð niður en telur hins vegar réttast í málinu að öll verkefnin (Forseti hringir.) úr ráðuneytinu verði flutt í stofnunina. Það er nýtt og því var ekki svarað af hæstv. ráðherra.