145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:30]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Meðal þeirra raka sem hafa komið fram fyrir því að sameina Þróunarsamvinnustofnun við ráðuneytið er m.a. það að báðar stofnanir sinna að sumu leyti tvíhliða og marghliða starfi, það yrði þá á einni hendi. Meiri og betri heildarsýn fæst yfir stefnumótun, svo dæmi sé tekið, og heildarskipulag verður einfaldað, þá er ekki lengur unnið á tveimur stöðum svona einangrað með fjölþjóðlega samvinnu og tvíhliða. Skilvirkni eykst að sjálfsögðu þegar málaflokkurinn er á einni hendi. Þá verður ekki jafn mikil þörf fyrir tímafrekt samráð á milli stofnana. Sendiskrifstofum verður stjórnað af einni hendi. Mannauðsstjórnun verður hagkvæmari þegar hægt er að skipta verkum milli fólks í litlum hópi og aukin tækifæri gefast fyrir starfsfólk o.s.frv.

Niðurstaðan og tillaga sú sem þetta frumvarp byggir á, eins og ég sagði áðan, er sú megintillaga sem fram kemur í skýrslu Þóris Guðmundssonar þar sem mælt er með því og færð rök fyrir því að það sé skynsamlegt að fara þessa leið.