145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:34]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra ræðu hans og fagna því að hann hafi komið inn í umræðuna á lokasprettinum, svo hægt sé þá að eiga svolítið skoðanaskipti hér í lokin þegar við erum búin að fara í gegnum umræðuna.

Hæstv. ráðherra talaði í ræðu sinni um skörunina, óskilvirknina sem væri, vegna þess að þróunarsamvinnan væri á tveimur stöðum, þ.e. annars vegar í ráðuneytinu og hins vegar hjá Þróunarsamvinnustofnun. Þetta er eitt af því sem við höfum rætt hérna dálítið og það sem hefur verið kallað eftir er að við þurfum dæmi. Ég hef ekki getað séð hæstv. ráðherra koma með eitthvert konkret dæmi um það hvar þessi skörun sé, hvar óskilvirknin sé. Það mundi hjálpa mér til þess að átta mig betur á málinu að fá það bara konkret, hvar er þetta vandamál?

Mig langar einnig að spyrja hæstv. ráðherra út í annað, því að hér hefur verið talað talsvert um hvort það sé sniðugt að blanda þróunarsamvinnu og diplómatískum áherslum eða annarri utanríkisstefnu saman. Í umsögn ASÍ kemur hreinlega fram að hætta sé á því, ef diplómatískar áherslur blandist inn í umræðuna, að framlagsríkin fari að reka þróunarsamvinnu með eigin hagsmuni að leiðarljósi en ekki hagsmuni fátækra ríkja einvörðungu.

Mig langar að heyra sýn ráðherrans á nákvæmlega það mál, því þetta er eitthvað sem ég hef áhyggjur af.