145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:36]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið og spurningarnar. Þingmaðurinn spurði sérstaklega um dæmi um skörun. Dæmi um skörun er vitanlega það að báðir aðilar í dag eru að sinna þróunarmálum, jafnvel báðir tvíhliða að einhverju leyti og marghliða að öðru leyti. Þarna er skörun sem dæmi.

Við erum með þrjár sendiskrifstofur sem Þróunarsamvinnustofnun sér um í dag; í Malaví, í Mósambík og í Úganda. Diplómasían er þar af leiðandi, þar í það minnsta, býsna mikið tengd inn í þessi störf. En ég held, ef ég reyni að átta mig á hvað þingmaðurinn í grunninn er að fara, að sú breyting sem gerð var fyrir nokkru á því hvernig við vinnum þróunarverkefnin í rauninni, allt það hafi þróast yfir í meira eftirlit og eftirfylgni. Við erum ekki í dag með hóp Íslendinga að vinna á vettvangi, beinlínis við að aðstoða. Við erum að fylgja því eftir að þeir fjármunir sem við látum af hendi rati á rétta staði, að þetta styrki heimamenn, efli sveitarstjórnir o.s.frv. Þannig er það í dag og þannig verður það nákvæmlega eins. Þá komumst við í rauninni fram hjá því að vera að díla við, sletti hér, afsakið, frú forseti, stjórnvöld á hverjum stað. Ég veit og viðurkenni það algjörlega að athugasemdir eru við það frá sumum stjórnvöldum að við förum þá leið. En þetta er mjög skilvirk leið. Við sjáum að peningarnir fara á réttan stað, þeir eru nýttir og þetta styrkir líka innviðina í bæjarfélögum og þeim héruðum þar sem héraðsstjórnirnar eru. Ég held því að við þurfum ekki að óttast þetta meðan við höldum þeirri nálgun okkar og engin áætlun er um að breyta því.