145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[17:15]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir ræðuna og lýsi því yfir, til að það sé hafið yfir allan vafa, að hér eftir sem hingað til er ég sammála markmiðum þessa frumvarps. Ég kem hér upp til að ræða við hæstv. ráðherra um stöðu Alþingis í þessu máli. Hann segir að það þurfi að styrkja stjórnsýsluna verulega og fyrir hönd okkar krata get ég lofað honum því að það mun ekki standa á okkur í þeim efnum, enda teljum við sterka stjórnsýslu gríðarlega mikilvæga fyrir almannahagsmuni. Hér er talað um hlutverk Alþingis, að það muni styrkjast á grunni betri aðstöðu til að meta og taka ákvörðun um þróun opinberra mála og að starfshættirnir muni styrkjast vegna nákvæmari upplýsinga, það verði þannig um hnútana búið að þetta verði betri upplýsingar fyrir Alþingi. Ég er sammála því en tel þó gríðarlega mikilvægt í ljósi þess að fjárveitingavaldið er hjá Alþingi að Alþingi verði styrkt með þeim hætti að hér verði burðug starfsemi á sviði ríkisfjármála innan veggja þingsins, að við eigum okkar fjárlagaskrifstofu. Í dag eru tveir ritarar hjá fjárlaganefnd, sannarlega frábærir starfskraftar, ég er ekki að gera lítið úr þeim, en það er ekki á neinn hátt viðunandi umsýsla og stjórnsýsla fyrir fjárveitingavaldið á móti því að móttaka alltaf upplýsingar frá framkvæmdarvaldinu.

Ég spyr ráðherra: Er hann ekki sammála mér í því að fjárlaganefnd ætti nú, þegar hún fer öðru sinni ítarlega yfir þetta mál, að gefa því sérstakan gaum að hér verði unnið að uppbyggingu sérstakrar einingar í þinginu sem efli hlutverk okkar til (Forseti hringir.) fjárveitinga sem og eftirlits með framkvæmdarvaldinu?