145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[17:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get alveg tekið undir það hjá hv. þingmanni að það skiptir máli að á þinginu sé efld sú eining sem fjallar sérstaklega um fjármál ríkisins og hins opinbera, að við klárum þetta mál með þeim hætti sem hér er lagt fyrir. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að hér þurfi að vera öflugri eining almennt um efnahagsmálin, einhvers konar deild um efnahagsmál og opinber fjármál sem fjárlaganefnd og eftir atvikum efnahags- og viðskiptanefnd geti treyst á, deild sem safni upplýsingum og sé til sérfræðiráðgjafar. Það þarf þó nokkuð að efla þetta umfram það sem nú gildir. Við höfum eflt nefndasviðið mjög mikið frá því sem áður var, það eru aðrir mér fróðari um stöðuna hér fyrr á árum í því efni en ég veit þó að á sínum tíma þurftu þingmenn sjálfir að skrifa nefndarálit svo dæmi sé tekið. Stuðningur nefndasviðsins við þingmenn í störfum þeirra var ekki nema skugginn af því sem hann er í dag. En við getum gert betur og við þurfum að gera betur og það segi ég af reynslu minni sem fjárlaganefndarmaður í heilt kjörtímabil. Það er alveg skýrt í mínum huga að það er töluvert mikill aðstöðumunur.

Ég ætla líka að nota þetta tækifæri til að nefna að þó að það sé mjög margt í þessu frumvarpi sem horfir til framfara og mun efla hvort tveggja, framkvæmdarvaldið í því að sinna betur sínu hlutverki og þingið í sínu eftirlitshlutverki, mun þetta allt taka einhvern tíma. Þetta verður ekki fullkomið frá fyrsta ári en þetta er engu að síður mjög mikið framfaraskref og ef við (Forseti hringir.) látum nægar fjárveitingar fylgja og tryggjum þinginu og framkvæmdarvaldinu þann mannskap sem þarf til að ná öllum þessum markmiðum munum við sjá mjög miklar framfarir í þessum málum.