145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[17:20]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra jákvæðar undirtektir og er fegin að heyra að hann er sammála mér enda blasir við að vitaskuld þarf að styrkja Alþingi til samræmis við aðra aðila máls í þessu ferli öllu saman. Við berum ábyrgðina hér. Ég tala að þessu sinni sem minnihlutaþingmaður og þó að upplýsingar séu góðar og veittar með gegnsæi að leiðarljósi koma ekki endilega alltaf allar upplýsingar fram. Það fer eftir því hver stjórnar því hvernig upplýsingarnar eru framreiddar og það skiptir máli fyrir okkur sem höfum eftirlit með útdeilingu fjármuna og tökum ákvarðanir um hvernig eigi að veita þá að við höfum hlutlausa aðila til að reiða okkur á til að afla þeirra upplýsinga sem við viljum fá. Það sést á þessu frumvarpi. Það verður nóg af góðum upplýsingum en það er nauðsynlegt að hafa hlutlausan aðila við höndina sem alþingismenn geta leitað til. Það er kannski eitthvað sem við alþingismenn ættum almennt að vera ófeimnari við að tala um, við eigum að krefjast þess að vera með miklu betri tól og tæki til að gegna okkar hlutverki. Það er eins og við skömmumst okkar fyrir að krefjast þess að við séum með almennilega umgjörð um störf okkar. Þegar kemur að vinnslu á fjárlagafrumvarpinu er það þannig fyrir alla þingmenn utan þeirra sem sitja í fjárlaganefnd að við erum ein með bókina og það er einna (Forseti hringir.) helst ef við eigum góðan vin sem hefur gott innsæi að við getum hringt í hann og svo auðvitað í gegnum fyrirspurnir í þinginu. Við þurfum samt apparat inn í þingið.