145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[17:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er munur á því hvort það er almenn samstaða eða alger. Ég tók ekki svo sterkt til orða að það væri alger samstaða, ég vil samt lýsa því aftur að ég hef upplifað nokkuð breiða og almenna samstöðu við meginmarkmið frumvarpsins. Varðandi það sem hv. þingmaður gerir að sérstöku umtalsefni hér, fjármálareglurnar, skal ég bara koma því skýrt til skila að það var alveg sérstakt áherslumál mitt. Reyndar kom Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ekkert að athugun þess máls fyrr en eftir að ég hafði óskað eftir því að við settum saman slíkar reglur. Ég tel að við eigum mjög mikið undir því að setja okkur töluleg viðmið varðandi þann árangur sem við viljum ná til lengri tíma. Ég er á hinn bóginn sammála hv. þingmanni um að það þurfi að vera einhverjar heimildir, einhver ventill í frumvarpinu til að bregðast við sérstökum aðstæðum þar sem töluleg viðmið, númerískar reglur eins og það er stundum orðað, eiga ekki við. Mér finnst það vel gert í 10. gr. frumvarpsins en við kunnum að vera ósammála um það.

Ég nefndi hér að svigrúmið væri þó það mikið að það mundi ekki brjóta reglurnar að vera með allt að 55 milljarða halla. Þá er ég að miða við stöðuna eins og hún er í dag í ríkisfjármálunum. Það er umtalsverður halli, töluvert mikill, og ef stefndi í meiri halla en það fyndist mér líklegt að skilyrði 10. gr. væru uppfyllt, þ.e. við stæðum frammi fyrir því að grundvallarforsendur fjármálastefnunnar væru brostnar eða það væru fyrirsjáanleg einhvers konar efnahagsáföll eða aðrar aðstæður sem ógerlegt væri að bregðast við með aðhaldsaðgerðum, tekjuöflunaraðgerðum eða einhverju slíku.

Til að auka líkur á stöðugleika á Íslandi tel ég að við verðum að stefna að því að vera að jafnaði (Forseti hringir.) með afgang á ríkissjóði og að jafnaði með viðskiptaafgang við útlönd. Þó að þetta með viðskiptaafganginn sé ekki orðið sérstakt mál hér eru þetta forsendur fyrir því að við getum aukið stöðugleikann og lækkað verðbólgu og vexti á Íslandi.