145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[17:28]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef alla tíð verið því fylgjandi í rekstri sveitarfélaga og ríkis, og félagasamtaka ef því er að skipta, að stefna að hallalausum fjárlögum og að við setjum okkur töluleg viðmið. Það sem ég er að gagnrýna er þegar slík viðmið eru sett í lög, það er það sem ég hef efasemdir um og mun gera grein fyrir á eftir.

Við settum slík viðmið inn í sveitarstjórnarlögin á sínum tíma og miðuðum þá við tekjur sveitarfélaga, að skuldbindingar færu ekki yfir 150% af heildartekjum sveitarfélaganna. Síðan kom á daginn að sum sveitarfélög, t.d. Kópavogur, vildu ráðast í byggingu á félagslegu húsnæði og eru strax farin að reka sig upp undir þak þó að það gæti verið skynsamleg ráðstöfun til lengri tíma litið að grípa til slíks. Það er þekkt líka hjá ríkjum að leita síðan hjáleiða í einkaframkvæmd eins og gert var í Bretlandi, illu heilli, á sinni tíð. Ég er fyrst og fremst að andmæla því að viðmið af þessu tagi séu bundin í landslög. Ég set fram efasemdir um það og mun gera nánar grein fyrir því í mínu máli á eftir.