145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[17:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að bregðast við umræðu um 7. gr. og hallarekstur sem sett eru nokkuð stíf takmörk í henni.

Við getum velt því fyrir okkur hvernig hefði verið fyrir okkur að hafa þessar reglur þegar bankakerfið fór hér á hliðina árið 2008. Þá var augljóst að ríkissjóður fór eins og hendi var veifað í mjög mikinn hallarekstur. Menn höfðu augljóslega þá strax hafið undirbúning að gerð fjárlaga fyrir næsta ár og fjármálaáætlun þar sem gera þurfti ráð fyrir talsvert miklum hallarekstri. Það spilaðist þannig úr því að við vorum með ríkið í hallarekstri þetta tiltekna ár, en það var í raun og veru bara hluti af fortíðinni vegna þess að ekki hafði verið gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að árið yrði í halla. Næst þegar menn komu að þessari vinnu höfðu þeir augljóslega gert ráð fyrir halla, svo spilaðist þannig úr því að við vorum með hallarekstur 2009, 2010, 2011 og 2012, það eru fjögur ár, og á árinu 2013 vorum við rétt við það að ná jöfnuði að meðaltali yfir þetta tímabil, augljóslega í mjög miklum halla og langt frá því að vera með heildarjöfnuð.

En við hefðum getað tekið fjármálaregluna úr sambandi í heil tvö ár yfir þetta tímabil. Það hefði þá dugað fyrir 2009, 2010 og 2011, þá hefðum við getað lagt upp með fimm ára áætlun fyrir árin 2012, 2013 og svo áfram þessi ár sem við erum núna að lifa. Ég get ekki betur séð en að það hefði verið alveg nóg.

Er ekki heilbrigt að gera þá kröfu á framkvæmdarvaldið, á fjármálaráðherrann, að hann komi hingað (Forseti hringir.) með sérstakt skjal og það sé tekin sérstök umræða um það og þingið greiði atkvæði um það hvort menn ætli að víkja frá markmiðinu um fimm ára heildarjöfnuð? Það finnst mér. Mér finnst að framkvæmdarvaldið (Forseti hringir.) eigi ekki að fá að hafa sjálfdæmi um það hverju sinni.