145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[17:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Við erum að leysa vanda sem varð mjög augljós í aðdraganda hrunsins þegar stefnan í opinberum fjármálum studdi ekki við áherslur Seðlabankans, þegar sveitarfélögin ráku eina fjármálastefnu og ríkið rak aðra. Við náðum ekki utan um þetta hvort tveggja í senn. Ég tel að við eigum að ganga eins langt í þessum reglum í 7. gr. og við treystum okkur til, en ég er sammála hv. þingmanni, við þurfum auðvitað að hlusta eftir ráðum okkar færasta fólks um það hversu löng hagsveiflan er. Þarna er verið að horfa yfir fimm ára tímabil og setja stífar reglur, nokkuð stífar reglur, þannig að framkvæmdarvaldið hverju sinni hafi nokkuð þétt aðhald af lögunum og þingið hafi það sem grundvallarviðmið að menn eigi að skila heildarjöfnuði yfir fimm ára tímabil. Í mínum huga kallast 7. gr. síðan mjög á við 10. gr. Ég tel að við aðstæður eins og fall fjármálakerfisins árið 2008 skapaði eigi 10. gr. einmitt við, alveg dæmigert ástand sem mundi virkja 10. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ef grundvallarforsendur fjármálastefnu bresta eða fyrirsjáanlegt er að þær muni bresta vegna efnahagsáfalla, þjóðarvár eða annarra aðstæðna, sem ógerlegt er að bregðast við með tiltækum úrræðum, skal ráðherra leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um breytingar á stefnunni eins fljótt og kostur er.“

Ástandið sem skapaðist hér 2008, 2009 er alveg dæmigert fyrir aðstæður þar sem ráðherrann mundi koma og segja: Nú er það mitt mat að ógerningur sé að vera með heildarjöfnuð yfir fimm ára tímabil, þess vegna vil ég virkja ákvæðið. Samkvæmt ákvæðinu væri heimilt að víkja tímabundið eða í allt að tvö ár frá skilyrðum 7. gr. Að liðnum þeim tveimur árum þyrftu menn að horfa til þess að skila heildarjöfnuði yfir næsta (Forseti hringir.) fimm ára tímabil.

Mér finnst hafa tekist vel til við að skapa (Forseti hringir.) nokkuð strangar reglur en viðurkenna um leið að það þurfi að skapa svigrúm.