145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[18:11]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við höfum fyrst að telja gert hlutina með ákveðnum hætti fram til þessa. Þingmenn, ráðuneytisfólk og aðrir hafa starfað samkvæmt ákveðnum hefðum í ótrúlega langan tíma. Miðað við hvernig þetta á að virka verður festan mun meiri en áður hefur verið og aðhaldið. Það er kannski það sem ég á við með hugarfarsbreytingu og er kannski hluti af því sem ég sagði áðan að maður geti ekki haft bein áhrif á hlutina eins og verið hefur. Það er verið að fela þetta svolítið í hendur framkvæmdarvaldsins, inn í málaflokkana, meira inn í ráðuneytin. Ef ekki á að kollvarpa því þannig að við missum tökin, við þingmenn, þá þarf ráðuneytið, embættismenn, stofnanir, að koma meira nær hugmyndum okkar, þ.e. að við finnum fyrir því að þetta sé ekki algjörlega úr okkar höndum.

Hugarfarsbreytingin er líka fólgin í stjórnsýslunni, þessari stjórnsýslubreytingu, að gera hlutina með allt öðrum hætti en verið hefur. Þegar við komum til með að greiða atkvæði greiðum við ekki atkvæði um einstaka tillögu, eins og hér kom fram. Verið er að greiða tillögu um heilan málaflokk. Við tökum ekki einn framhaldsskóla og ræðum sérstaklega um hann, heldur tökum við alla framhaldsskóla í einum pakka og ekki einu sinni það, heldur bara allt skólakerfið. Ég held að slíka breytingu þurfi að skoða aðeins betur.