145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[18:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar aðeins til að bregðast við ábendingu hv. þingmanns um 7. gr. og möguleg áhrif þess að lögfesta þessar reglur.

Mér finnst þetta skipta mjög miklu máli. Ég fagna allri umræðu um þessi mál. Mér finnst þetta annars vegar snúast um það hvort það sé fullnægjandi að vera með svona almenna yfirlýsingu um einhver meginmarkmið, nota hugtök eins og sjálfbærni og varúð og gegnsæi og slíkt, eða hvort við erum tilbúin til að stíga það skref að setja tölusett markmið með þeim ventli sem er að finna í 10. gr. Mér finnst ágætt fyrir okkur hér á þinginu að velta því fyrir okkur hvort við getum gert þetta, ekki síst í ljósi þess að í Evrópusambandinu, þar sem menn hafa komið sér saman um að reka sameiginlega mynt, þá hafa menn gengið svo langt, ekki bara að taka upp reglur sem eru að efni að verulegu leyti sambærilegar þessum, þ.e. að undirgangast það að vera ekki með nema takmarkaðan halla og vinna niður skuldir þegar þær ná ákveðnu hámarki, heldur að undirgangast sektir ef menn ná ekki þessum markmiðum. Við erum hér að ræða um það hvort við getum sett fyrir okkur sjálf tilteknar agareglur með fráviki til þess að við, þegar við erum að setja okkar lög, höfum þau til viðmiðunar og í samskiptum þingsins og framkvæmdarvaldsins. En aðrir hafa ekki bara gert þetta, þeir hafa framselt hluta af fullveldi sínu til sameiginlegra stofnana og undirgengist agavald þeirra þar sem Evrópusambandið getur lamið í hausinn á aðildarríkjunum og hreinlega sektað þau. Þetta hafa önnur þjóðþing gert. Þau hafa undirgengist alþjóðlegt agavald. En við erum að velta því hér fyrir okkur hvort við séum tilbúin til þess að setja slíkt agavald á okkur sjálf án þess að framselja neinn hluta af fullveldinu. Mér finnst ágætt að hafa þetta aðeins í huga í þessari umræðu.