145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[19:01]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það kann að vera að frekari skoðun á ákvæðum 10. gr. og lögskýringargögn með henni og samspil hennar við 7. gr. búi til aðeins meira svigrúm en verður ráðið af lestri frumvarpstextans einum og sér. Hann vísar ansi harkalega í þá átt að það þurfi til algjört hrun, og talað beinlínis um náttúruhamfarir eða hvað það nú er. En það er eitthvað sem menn gætu unnið með. Er það ekki þess virði að leggja smá vinnu í að draga upp svolitla lögskýringu um það við hvaða aðstæður og í hvaða skyni, í hvaða tilgangi, menn telja eðlilegt að ráðherrann geti komið til þingsins með tillögur um að virkja þetta ákvæði? Ég er alveg hjartanlega sammála hæstv. ráðherra um það að auðvitað er það miklu vandaðri málsmeðferð en að ríkisstjórn geti bara á góðum degi ári fyrir kosningar ákveðið að nú sé bara allt í lagi að gefa í og spreða og hafa það gott og enginn komi morgundagurinn. Ég er ekki á móti því að þetta sé allt saman í ramma af þessu tagi. Ég er síður en svo á móti því að menn þurfi alltaf að koma til þingsins og gera grein fyrir því ef þeir ætla að víkja frá þeim áætlunum og römmum sem menn hafa eftir atvikum undirgengist, kynnt fyrir þinginu áður og bundnir eru í lög.

Varðandi ríkið og sveitarfélög og þegar reynir á 7. gr., þá erum við þar að tala um sameiginlegan ramma utan um hin opinberu fjármál. Sveitarfélögin verða hluti af þessum römmum. Þau verða að leggja í púkkið ef menn ætla að ná því fram að vera hallalausir að meðaltali í fimm ár og fara aldrei undir 2,5%. Hvað munu sveitarfélögin segja við fjármálaráðherra á erfiðum tímum þegar hann kemur og segir: Nú verðið þið að leggja þetta af mörkum. Nú verðið þið að gera svona. Þá munu þau segja: Við getum það ekki nema ríkið (Forseti hringir.) hjálpi okkur. Þá færist þetta yfir í árlegar samningaviðræður, held ég. Það er ekkert erfitt að skilja það þegar sveitarfélögin eru að þessu leyti svipt fullkomnu fjármálalegu sjálfstæði (Forseti hringir.) samanber það sem hæstv. ráðherra var sjálfur að segja um Evrópusambandið hér fyrr.